Home Fréttir Í fréttum Pólskir verkamenn fengu ekki greitt

Pólskir verkamenn fengu ekki greitt

145
0
Pólverjar sem unnið hafa við byggingu nýs sjúkrahótels við Hringbraut hafa ekki fengið greidd laun í þrjá mánuði. Starfsmenn sama verktakafyrirtækis vinna að verkefni við Hlíðarenda. Hluti verkamanna frá báðum stöðum hefur lagt niður störf.

Pólskir starfsmenn verktakafyrirtækis G&M settu sig í samband við Eflingu stéttarfélag og kvörtuðu undan því að hafa ekki fengið greidd laun frá tveimur vikum upp í allt að þrjá mánuði.

<>

G&M er pólskt fyrirtæki og starfar sem undirverktaki hjá LNS Sögu við sjúkrahótelið. Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir unnið að lausn málsins í samvinnu við LNS Sögu.

Frá þessu var fyrst greint á mbl.is. Þar er haft eftir Ásgeiri Loftssyni, framkvæmdastjóra LNS Sögu, að fyrirtækið hyggist stöðva greiðslur til G&M þar til laun starfsmannanna hafi verið gerð upp. Ekki náðist í Ásgeir í dag, né aðra forsvarsmenn LNS Sögu.

Hluti starfsmanna G&M var þó við vinnu í dag. Verkefnisstjóri fyrirtækisins segir að málið hafi ekki verið eins slæmt og gefið hafi verið til kynna, en fyrirtækið hafi átt í skammtímavandræðum með reiðufé. „Í gær var hluti starfsmanna okkar heima á hóteli og hluti þeirra kom til vinnu. Þeir fengu ekki útborguð öll launin sín,“ segir Michal Tomaszewski, verkefnastjóri G&M. „Þeir fengu næstum öll launin, það vantaði bara lítið upp á, en þeir lögðu niður störf því þeir vilja ekki að þetta komist upp í vana, að það vanti hluta launanna.“

Michal segir málið vera leyst. „Fyrirtækið okkar gerði líka samning við íslenskt samstarfsfyrirtæki okkar,“ segir Michal. „Við lentum í smá vandræðum, en nú er allt á hreinu. Öll vandamál eru leyst og við erum í sambandi við stéttarfélögin.“

Heimild: Ruv.is