Home Fréttir Í fréttum Lóðaverðið tífaldast á tíu árum

Lóðaverðið tífaldast á tíu árum

200
0
Davíð M. Sigurðsson Mynd: VÍSIR/EYÞÓR

Lóðaverð hefur hækkað mikið á síðustu árum, og þá sérstaklega miðsvæðis í Reykjavík þar sem meiri eftirspurn er eftir lóðum. Hannarr og Samtök iðnaðarins (SI) áætla kostnað við lóðaverð um 20 prósent af heildarbyggingarkostnaði. Lóðaverð myndar því þrýsting til hækkunar íbúðaverðs. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Íslandsbanka um íbúðamarkaðinn.

<>

Frá 2003 til 2016 hefur lóðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað frá um 500 þúsundum í fimm til tíu milljónir króna á hverja íbúð, eða ríflega tífaldast. Á sama tíma hefur íbúðaverð á því svæði þrefaldast. „Ofan á hækkun lóðaverðs bætast svo fleiri gjöld sem hafa einnig hækkað,“ segir Davíð M. Sigurðsson, markaðsstjóri ÞG Verks. „Auðvitað hefur þessi lóðahækkun áhrif á íbúðaverð, rétt eins og hækkun á mjólk hækkar jógúrtverð.“

Í október hófst formlega sala á 163 íbúðum ÞG Verks á Naustabryggju, en íbúðirnar eru að sögn Davíðs á markaðsvænu verði og ætlaðar ungu fólki og fyrstu kaupendum. Davíð segir þann gríðarlega húsnæðisskort sem ríkir nú endurspeglast í eftirspurn á þeim íbúðum. „Það eru einungis tvær eftir og við höfum selt fyrir 5,5 milljarða í einu. Við náum ekki að halda aftur af fólki sem er að grátbiðja okkur um að fá að kaupa.“

„Það er rosalega lítið framboð af lóðum fyrir verktaka eins og okkur sem erum tilbúnir að fara í framleiðslu á íbúðum á verði sem vantar. Við höfum líka verið að byggja hægindaíbúðir, eins og til dæmis á Garðatorgi, en sá markaður er orðinn svolítið mettur,“ segir Davíð en hann telur einnig þörf á að breyta deiliskipulagi og byggingarreglugerðum til að geta boðið upp á íbúðir á viðráðanlega verði.

Davíð gagnrýnir úthlutun lóða til aðila sem ekki byggja á þeim. „Okkur finnst athugavert að úthluta lóðum til aðila sem ekki á að byggja á, þetta verða bara þróunarverkefni og svo hækkar lóðaverðið um helming. Þá er ekki orðinn möguleiki fyrir aðila eins og okkur að kaupa og byggja þarna.“

Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, tekur undir orð Davíðs um að það sé klárt mál að lóðaverð hafi hækkað mikið. Það sé þó erfitt að mæla hækkunina. „Grunndrifkrafturinn á bak við lóðahækkunina er skortur á lóðum.

Fókusinn á höfuðborgarsvæðinu hefur verið að þétta byggð. Það eru ákveðnir kostir við það. Hins vegar samrýmist það illa hugmyndum um að reyna að ná niður byggingakostnaði og kostnaði við húsnæði,“ segir Bjarni.

„Við sjáum lítið framboð á lóðum sveitarfélaganna sem gefa kost á ódýrara húsnæði. Kröfurnar sem eru settar bæði af hálfu sveitarfélaga en líka byggingarreglugerðar og annarra eru einnig þröngar, menn hafa að einhverju leyti verið hikandi við að fara af stað. Maður spyr sig hvort það sé heilbrigð staða á markaði að verðin séu að þrýstast upp á við bara vegna skorts, og að skorturinn sé að einhverju leyti bara af mannavöldum,“ segir Bjarni Már Gylfason.

Heimild: Visir.is