Home Fréttir Í fréttum Segja iðnaðarráðherra fara með rangt mál varðandi kærumál vegna lagningu raflína að...

Segja iðnaðarráðherra fara með rangt mál varðandi kærumál vegna lagningu raflína að Bakka

83
0
Mynd: Norðurþing

Í júní og ágúst stöðvaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) framkvæmdir í Leirhnjúkshrauni og Þeistareykjarhrauni á fyrirhugaðri leið fyrir raflínur frá Kröflu að iðnaðarsvæðinu á Bakka við Húsavík. Það voru Landvernd og Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, sem höfðu kært framkvæmdirnar. Nú segja Landvernd og Fjöregg að stjórnvöld hafi staðið fyrir sýndarviðræðum við samtökin vegna málsins en á sama tíma hafi verið unnið að undirbúningu lagafrumvarps sem fer gegn úrskurði ÚUA.

<>

Þann 21. september kynnti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra,  frumvarp til laga sem heimilar línulögn að Bakka og sagði að frumvarpið væri framkomið þar sem tilraunir yfirvalda „til að ná deiluaðilum saman að annarri lausn“ hafi ekki tekist. Í grein í Fréttablaðinu í dag segir Snorri Baldursson, formaður Landverndar, að þetta sé ekki rétt og í sama streng er tekið í tilkynningu frá Fjöreggi sem var send út í morgun.

Í grein Snorra segir hann að kærur Landverndar og Fjöreggs hafi byggst á því að nútímahraun njóti sérstakrar verndar samkvæmt nýjum og gömlu náttúruverndarlögum en einnig hafi fleiri ástæður verið nefndar til sögunnar í kærunum. Tilgangur samtakanna, með kærunum, hafi verið að tryggja að umhverfisvænni leiðir yrðu valdar undir raforkuflutning að Bakka, ekki hafi átt að stöðva atvinnuuppbyggingu þar.

Snorri segir að í kjölfar úrskurða ÚUA í ágúst hafi komið fram sterkar kröfur um að Alþingi og ríkisstjórnin skiptu sér af málinu. Ríkisstjórnin hafi ákveðið að reyna að leysa málið með „lagaofbeldi“ í stað þess að finna aðrar leiðir fyrir línur og jarðstrengi en upphaflega voru fyrirhugaðar.

Snorri segir að þegar iðnaðarráðherra kynnti lagafrumvarp á miðvikudaginn um að heimila línulögn að Bakka hafi ráðherrann sagt að yfirvöld hefðu „leitað allra leiða til að ná deiluaðilum saman að annarri lausn“. Snorri segir þetta vera rangt hjá ráðherra. Fulltrúar Landverndar hafi margoft verið kallaðir á fund með ráðherrum og embættismönnum en það hafi einungis verið sýndarviðræður sem hafi átt að róa fjárfesta. Á sama tíma hafi embættismenn unnið hörðum höndum að undirbúningi lagafrumvarpsins.

Í sama streng er tekið í tilkynningu frá Fjöreggi þar sem segir að stjórnvöld hafi ekki haft neitt samband við félagið vegna málsins og að ríkisstjórnin hafi staðið fyrir sýndarviðræðum þar sem vilji og skoðanir félagsins voru virt að vettugi.

Heimild: Eyjan.is