Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands, segir þéttingu byggðar í Reykjavík vera komna í öngstræti.
„Maður verður var við aukna gagnrýni frá almenningi sem sér útkomuna og hefur meira að styðjast við en aðeins þrívíddarmyndir á skjá.
Ég tel að þessi ofurþéttingarstefna, eins og hún birtist á þessum reitum, sé komin að þrotum og það muni verða krafa borgarbúa að öðruvísi verði staðið að málum.
Það er heldur ekki hægt að ætlast til þess að í borg sem hefur verið skipulögð í áratugi m.t.t. þess að fjölskyldur verði að eiga sinn einkabíl sé hægt að fyrirskipa fólki að hætta að nota bíl án þess að bjóða upp á aðra lausn en óljósa framtíðardrauma,“ segir Pétur sem telur að hugmyndir um endurgerð eldri borgarhluta hafi verið fluttar inn, m.a. frá Bretlandi, án þess að hugsa hlutina til enda.
Skortir raunveruleikatengingu
„Það vill henda þegar nýjar skipulagshugmyndir koma fram að nokkuð skorti á raunveruleikatenginguna þegar kemur að því að framfylgja þeim.
Mennirnir sem lögðu grunn að bæjarskipulagi á Íslandi, Guðjón Samúelsson og Guðmundur Hannesson, aðlöguðu framsæknar erlendar hugmyndir íslenskum aðstæðum. Það var þeirra styrkur.“
Nánar má lesa um málið á bls. 16 í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is












