Home Fréttir Í fréttum Stærsta arkitektastofan velti 1,3 milljörðum

Stærsta arkitektastofan velti 1,3 milljörðum

22
0
Arkís hefur unnið að hönnun Vogatorgs sem tengir m.a. saman Elliðaárdal og Laugardal.

Stærðarröð fjögurra stærstu arkitektastofa landsins er óbreytt og hagnaður jókst á milli ára.

Hagnaður stærstu arkitektastofanna jókst árið 2024 og nam 728 milljónum króna, en var 679 milljónir króna árið á undan. Þetta er fyrsta verulega hækkunin eftir sveiflukennt tímabil. Veltan jókst aðeins um 1,7% milli ára og hélt því ekki í við verðbólgu.

Stærðarröð fjögurra stærstu stofanna er óbreytt frá fyrra ári. Nordic Office of Architecture var áfram stærsta arkitektastofan með 1.307 milljónir króna í tekjur, samanborið við 1.262 milljónir króna árið 2023. Þetta er hófleg tekjuaukning eftir sterkt ár 2023. Eitt stærsta verkefni stofunnar er stækkun flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Skjáskot af Vb.is

Arkís var í öðru sæti með 1.105 milljónir, hærra en 889 milljónir árið áður, og sýndi þar með eina mestu tekjuaukningu árins. Í þriðja sæti voru THG Arkitektar með 732 milljónir, samanborið við 716 milljónir árið 2023. T.ark Arkitektar voru fjórða stærsta stofan með 696 milljónir, en velta þeirra nam 643 milljónum árið áður.

Skjáskot af Vb.is

Arkís hagnaðist mest

Mestur hagnaður árið 2024 var hjá Arkís arkitektum eða 155 milljónir króna, samanborið við 44 milljónir árið 2023. Þetta var langmesta hækkun ársins. Arkís hefur unnið að mörgum verkefnum fyrir Reykjavíkurborg á umliðnum árum, líkt og Vogatorg, Miklatorg, og svæði 2 á Ártúnshöfða. Stofan skrifaði í ár undir samning um hönnun á menningarhúsi á Sauðárkróki.

BASALT arkitektar skiluðu næstmestum hagnaði, 134 milljónum, en voru með 104 milljónir árið áður og styrktu þannig stöðu sína sem ein hagkvæmasta stofan á markaði. Meðal þeirra verkefna eru Skógarböðin í Vaðlaskógi, sem er eitt best heppnað baðlón landsins. Eitt af verkefnum þeirra er nýr Landsspítali.

Í þriðja sæti voru THG Arkitektar með 88 milljónir, en hagnaður þeirra var 44 milljónir árið 2023. ASK Arkitektar högnuðust um 65 milljónir og Nordic Office of Architecture um 64 milljónir. Fjórtán af átján stofum skiluðu jákvæðri afkomu árið 2024, sem er sama fjöldi og árið áður.

Meðalhagnaðarhlutfall stofanna átján var 10% árið 2024. Hæsta hlutfallið var hjá BASALT arkitektum sem voru með 23%, næst komu HuldaJóns Arkitektúr með 19% og þar á eftir Trípólí með 18%. Þrjár stofur voru langt yfir meðaltali en átta voru undir 10% markinu.

Heimild: Vb.is