
Of fá legurými eru á Landspítala og engin sjáanleg lausn er í sjónmáli. Nýr meðferðarkjarni sem er hluti af nýjum spítala og á að taka í notkun árið 2030 mun ekki duga til til þess að leysa vandann.
Að óbreyttu má því gera ráð fyrir því að ítrekað þurfi að nota hvert rými bráðamóttöku til að vista fólk að sögn Runólfs Pálssonar, forstjóra Landspítala.
Talsverða athygli vakti á föstudag í síðustu viku, þegar fregnir bárust af því að sjúklingar væru vistaðir í bílskýli.
„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við höfum þurft að nýta þetta rými,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans og bendir á að fólk hafi þurft að nýta öll rými á Covid-tímum.
56 þegar rýmin eru 36
„Þetta snýst alltaf um þetta flæði sem þarf svo hægt sé að hafa pláss fyrir þá sem koma nýir inn. Það skapast oft ástand þar sem ekki er hægt að útskrifa nægilega marga. Svigrúmið sem við höfum er svo takmarkað þegar álagið eykst,“ segir Runólfur.
Hann segir að á síðustu dögum hafi 56 þurft á innlögn að halda þegar mest lét en meðferðarrými eru einungis 36.
Aðstæður geta verið einkennilegar
„Því var fólk á göngunum og úti um allt. En svo þurfum við líka að hugsa fyrir því að einangra fólk og margir voru smitaðir eða grunur lék á inflúensusmiti og því urðum við að nota þetta rými [bílskýlið] til einangrunar. Aðstæðurnar okkar geta verið einkennilegar og hlutir geta farið úr böndunum þegar álag er mikið,“ segir Runólfur.
Hann segir að þegar leið á daginn á föstudag hafi brostið stífla og hægt var að losa legurými. Í kjölfarið var fólk flutt úr bílskýlinu.
Ekkert inngrip frá ráðuneytinu
„Við ræddum við ráðuneytið og þó að það hafi ekkert inngrip komið í þessu tilviki þá má búast við þungri stöðu á næstunni og kannski eitthvað hægt að gera. Inflúensan er fyrr á ferðinni en áður, en það kann að verða annasamt fram undan. En þetta er ekkert nýtt. Ég er búinn að vera forstjóri í fjögur ár og þau hafa einkennst af þessu plássleysi allan tímann. Við höfum kallað eftir lausnum allan þennan tíma en lítið orðið ágengt,“ segir Runólfur.
Viðbygging verður tekin í gagnið á fyrri hluta næsta árs.
Þar verður pláss fyrir 20 manns sem þurfa skemmri legu en Runólfur segir að það muni ekki duga til þó að það muni létta eitthvað á.
Muni ekki duga til
Nýr spítali, eða meðferðarkjarni, verður tekinn í notkun árið 2030. Runólfur segir þegar ljóst að þau legurými sem þar bætast við muni ekki duga til.
„Við munum nýta legurými á Hringbraut áfram en það er þegar komið til umræðu að bæta við byggingu með legurýmum,“ segir Runólfur.
Heimild: Mbl.is











