Snæfellsbær býður upp á 90 prósent afslátt af gatnagerðargjöldum fyrir íbúðarhús í þéttbýli. Bæjarstjóri segir þetta fyrirkomulag hafa gefist vel og það verður framlengt um eitt ár.
Afsláttur af gatnagerðargjöldum hefur haft jákvæð áhrif í Snæfellsbæ, að sögn bæjarstjórans.
Afslátturinn nemur 90 prósent af gatnagerðargjödlum íbúðarhúsnæðis í þréttbýli og 50 prósent af gatnagerðargjöldum iðnaðarhúsnæðis í þéttbýli. Hann hefur verið í boði í þrjú ár og í byrjun vikunnar var hann framlengdur um eitt ár í viðbót.
Ný greining Samtaka iðnaðarins á gatnagerðargjöldum, þróun þeirra og hlutfalli af heildarkostnaði nýrra íbúða, sem var birt í gær, sýndi að átta stærstu sveitarfélög landsins innheimtu 57 milljarða króna í byggingarréttar- og gatnagerðargjöld á þremur árum.
Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hann segir bæjaryfirvöld hafa tekið ákvörðun um að veita afslátt til að ýta undir uppbyggingu.
„Og ákváðum þá að gefa afslátt af gatnagerðargjöldum í þegar skipulögðum hverfum þar sem eru lausar lóðir inn á milli.“
Kristinn segir það hafa haft jákvæð áhrif. „Já og nei, það var ekkert einhver svakalegur kippur hjá okkur en það hafa verið byggðar nokkrar íbúðir og iðnaðarhúsnæði og við viljum meina það að þetta hafi verið jákvæð áhrif í samfélagið hjá okkur og þess vegna höldum við þessu áfram.“
Gaman að fá unga fólkið til baka
Lausar lóðir eru í sveitarfélaginu og Kristinn segir unnið að skipulagningu á nýju hverfi í Ólafsvík. „Þannig að við vonum að þetta verði sígandi lukka, þetta er ekki sama æðið og er á höfuðborgarsvæðinu, ekki sömu lætin en við búum við öðruvísi umhverfi en þar.“
Aðspurður hvort þessar aðgerðir hafi laðað að nýja íbúa segir Kristinn erfitt að svara þeirri spurningu. „Við erum aðallega ánægð að vera að fá unga fólkið til baka. Við segjum mikið sveitarstjórnarfólkið að það sé gaman að fá fólkið til baka, búið að mennta sig og er þá að sinna þeim störfum sem það hefur áhuga á.“
Heimild: Ruv.is












