
Átta stærstu sveitarfélög landsins innheimtu samtals 57 milljarða í byggingarréttar- og gatnagerðargjöld á árunum 2022 til 2024. Er það 5,5% af heildarkostnaði sveitarfélaganna yfir sama tímabil.
Þetta kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins.
Í tilkynningu frá samtökunum segir að álögur á nýbyggingar séu orðnar verulega íþyngjandi og að byggingarréttar- og gatnagerðargjöld séu orðin stór tekjuliður hjá mörgum af stærstu sveitarfélögum landsins.
Þá hafi þessi skattheimta sveitarfélaga aukist til muna á síðustu árum. Í sumum tilfellum hefur hækkunin verið langt umfram hækkun byggingarvísitölu.
Samtökin kalla eftir því að gjaldtökuheimildir sveitarfélaga verði endurskoðaðar til að tryggja fyrirsjáanleika, aukið gagnsæi og hófstillingu gjalda.
„Til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði þarf að tryggja nægt framboð byggingarhæfra lóða og stilla opinberri gjaldtöku í hóf svo hún vinni ekki gegn uppbyggingu.“
Hækkað um 67%
Tekjur Reykjavíkurborgar voru hæstar á tímabilinu, eða alls 19 milljarðar króna, þar á eftir komu Garðabær með 14,8 milljarða króna og Hafnarfjörður með 11,1 milljarð króna.
Þess ber að geta að hin sveitarfélögin höfðu umtalsvert lægri tekjur af sölu byggingarréttar.
„Hækkun gjalda umfram almenna verðlagsþróun og byggingarkostnað er talin ein helsta áskorunin í rekstrarumhverfi verktaka í dag,“ segir í tilkynningu SI.
Þá kemur fram að gatnagerðargjöld af hundrað fermetra íbúð í fjölbýli með bílastæði í bílakjallara hafi að jafnaði hækkað um 67%, eða um 1,8 m.kr. frá janúar 2020 til nóvember 2025.
Aftur á móti hækkaði byggingarvísitalan aðeins um 37% yfir sama tíma.
„Þessi þróun dregur úr hagkvæmni verkefna og hamlar nauðsynlegri uppbyggingu á húsnæðismarkaði,“ segir í tilkynningunni.
Erfiðara að mæta eftirspurn
Könnun SI meðal byggingaraðila varpar ljósi á að aukin gjaldtaka þrengir að rekstri þeirra og dregur úr getu til að mæta eftirspurn.
„Arðsemi fyrirtækja í húsnæðisuppbyggingu hefur minnkað, en hagnaður greinarinnar var 6,2% af tekjum í fyrra samanborið við 7,3% í viðskiptahagkerfinu. Árið 2022 var hagnaðarhlutfallið 10,5% og hefur þannig lækkað talsvert, meðal annars vegna mikillar hækkunar á gjaldtöku sveitarfélaga.“
Heimild: Mbl.is











