Home Fréttir Í fréttum Vilja rífa niður nýtt safaríhótel í Keníu

Vilja rífa niður nýtt safaríhótel í Keníu

13
0
Hótelið var opnað í ágúst á þessu ári og kostar nóttin um 450 þúsund krónur. Ljósmynd: Aðsend mynd

Leiðtogar Maasai-ættbálksins í Keníu hafa farið fram á að nýtt hótel í eigu Ritz-Carlton verði rifið niður þar sem það trufli dýraflutninga.

Leiðtogar Maasai-ættbálksins í Keníu hafa farið fram á dómsúrskurð til að láta rífa niður nýtt lúxussafaríhótel sem er í eigu Ritz-Carlton en ættbálkurinn segir að hótelið standi í vegi fyrir mikilvægri dýraflutningaleið á Serengeti-sléttunni.

Á vef WSJ er vitnað í Meitamei Olol Dapash, einn af leiðtogum ættbálksins sem er einnig með doktorsgráðu frá bandarískum háskóla. Hann segir að hótelsvæðið, sem liggur við landamæri Tansaníu, sitji við mikilvæga flutningaleið meðal sebrahesta og annarra dýra.

Dapash, sem er einnig forstöðumaður Maasai Environmental Resource Coalition, hefur höfðað mál gegn Marriot International, móðurfyrirtæki Ritz-Carlton, og kenískum yfirvöldum vegna hótelsins sem opnaði í ágúst á þessu ári.

Hótelsvæðið situr við mikilvæga flutningaleið meðal sebrahesta og annarra dýra.
© Skjáskot

Hann segir að fílar á svæðinu hafi þegar lent í erfiðleikum með að finna nýjar flutningaleiðir eftir að hafa notast við staðsetningu Ritz-Carlton, sem situr við mikilvæga á, í meira en áratug í leit að grænu graslendi.

Dýraflutningarnir í Serengeti eru meðal stærstu spendýraflutninga í heiminum en um tvær milljónir villidýra, sebrahesta og annarra dýrategunda ferðast fram og til baka milli Serengeti-sléttunnar í Tansaníu og Maasai Mara í Keníu í leit að vatni og ferskum haga.

Fleiri hundruð þúsund ferðamenn flykkjast til svæðisins á hverju ári í von um að sjá hjarðirnar hlaupa frá krókódílum sem bíða við ánna. Ritz-Carlton-hótelið á svæðinu rukkar ferðamenn um 3.500 dali, eða tæplega 450 þúsund krónur, á nóttu á háannatíma.

Heimild: Vb.is