
Sveitarfélagið Borgarbyggð er komið á fullt í undirbúningsvinnu fyrir stórfellda fasteignauppbyggingu í Brákarey í Borgarnesi. Hótel, baðlón og íbúðir eru á teikniborðinu þar. Fyrirtæki Ólafs Ólafssonar í Samskipum á fasteignaþróunarfélagið.
„Við erum öll sammála um það hér að í Brákarey eru bara mikil tækifæri; mikil tækifæri til að skapa verðmæti í öllum skilningi þess orðs fyrir samfélagið hér,“ segir sveitarstjóri Borgarbyggðar, Stefán Broddi Guðjónsson.
Hann segir Brákarey í Borgarnesi vannýtta perlu og að hann bindi miklar vonir við fyrirhugaða uppbyggingu þar. Brákarey er lítil klettaeyja sem liggur þétt upp við Borgarnes og er tengd við landið með brú yfir svokallað Brákarsund.
Ég held að þetta sé bara eins og aðrar hugmyndir sem koma upp í Brákarey, þetta er eitthvað sem er flott á glærukynningu en verður ekki nein alvara úr.
Fyrirtæki Ólafs Ólafssonar fjárfestis hyggur á stórfellda fasteignauppbyggingu í Brákarey.
Til stendur að byggja hótel, baðlón og fjölda íbúða í eynni. Ólafur er yfirleitt kenndur við flutningafyrirtækið Samskip en síðastliðin ár hefur meira farið fyrir fasteignafyrirtæki hans sem heitir Festir.
Þetta er fyrirtækið sem hefur byggt lúxusíbúðir sem kallast Vesturvin í vesturbæ Reykjavík og einnig íbúðahverfið við Elliðavog í austurhluta Reykjavíkur.
Stefán Broddi segir að skipulagsvinna við þessa uppbyggingu sé komin svo langt að segja megi að framkvæmdir séu hafnar.
Þessar hugmyndir hafa verið til umræðu í Borgarnesi frá því sumarið 2024 þegar þær voru kynntar á íbúafundi.
Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í lok október var Stefáni Brodda falið að halda áfram að vinna að þessari uppbyggingu.
Í fundargerðinni stendur: „Byggðarráð þakkar fulltrúum Festis fyrir gott samtal um þá vinnu sem nú stendur yfir og þá uppbyggingu sem stefnt er að. Lögð fram drög að uppfærðri viljayfirlýsingu milli Borgarbyggðar og Festis um samstarf um skipulag og uppbyggingu í Brákarey. Byggðarráð tekur vel í framlögð drög og felur sveitarstjóra að fullvinna í samstarfi við Festi og leggja fyrir sveitarstjórn.“
Fjallað er um þessar hugmyndir um uppbyggingu í Brákarey í fréttaskýringaþættinum Þetta helst í dag á Rás 1.
Sveitarfélagið á eftir að tryggja sér fasteignir í Brákarey
Framkvæmdirnar í Brákarey hafa verið talsvert ræddar í Borgarnesi frá því þær voru kynntar fyrir íbúum í fyrra. Fleiri virðast vera fylgjandi framkvæmdunum en á móti þeim, miðað við samtöl við íbúa.
Hins vegar á eftir að ganga frá mörgu áður en af þessum framkvæmdum getur orðið. Eitt af því er til dæmis að kaupa þarf fasteignir í Brákarey af þeim sem eiga þær.
Óskar Sigvaldason er einn af þeim sem á fasteign í Brákarey sem er í notkun. Hann segir við Þetta helst að enginn hafi haft samband til að falast eftir kaupum á þeirri eign sem hann á.
Óskar segist ekki vera á móti uppbyggingunni í Brákarey en að ná þurfi samningum við fasteignaeigendur í eynni með góðum fyrirvara. Hann segist þurfa að minnsta kosti þrjú ár til að byggja aðra fasteign annars staðar í Borgarnesi undir þá starfsemi sem hann er með í Brákarey.
Óskar hefur ekki trú á að það sé mikil alvara í þessum framkvæmdum. „Ef það væri einhver alvara í þessu þá væri einhver búinn að nálgast okkur til að kaupa þessi hús af okkur. Ég held að þetta sé bara eins og aðrar hugmyndir sem koma upp í Brákarey, þetta er eitthvað sem er flott á glærukynningu en verður ekki nein alvara úr.“
Heimild: Ruv.is











