
Samstaðan, sem náðist milli stjórnmálaflokkanna í Færeyjum í síðustu viku um veglínu Suðureyjarganga, virðist ekki eins víðtæk og ætla mátti. Náttúru- og umhverfissamtök hafa risið upp og mótmælt og íbúar Sandeyjar virðast afar ósáttir. Deildir flokkanna á Sandey leggjast hart gegn niðurstöðunni. Þá lýsa lykilmenn í efnahagsmálum eyjanna þeirri skoðun að jarðgöngin séu fjárhagslegt glapræði. Færeyingar muni ekki hafa ráð á göngunum.
Ástæða óánægju með leiðarvalið eru áhrifin af veginum sem leggja á þvert yfir Sandey til að tengja gangamunna fyrirhugaðra Suðureyjarganga við gangamunna Sandeyjarganga sem voru opnuð fyrir tveimur árum. Sandeyingar segja að vegurinn muni kljúfa eyjuna í tvennt, mikið ónæði skapist af umferðinni en einnig verði dýrmætu landi fórnað undir veginn.

grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson
Valið stóð einkum á milli tveggja kosta. Annarsvegar leiðar 2A, sem eru 28 kílómetra löng göng og talin kosta 104 milljarða íslenskra króna, og hinsvegar leiðar 1A, sem eru 24 kílómetra löng og áætluð kosta 94 milljarða íslenskra króna.
Lögmaður Færeyja, Aksel V. Johannessen, tilkynnti síðastliðinn mánudag að allir flokkar á Lögþinginu hefðu náð samstöðu um að velja styttri og ódýrari leiðina, leið 1A, en fjallað hefur um ákvörðunina í frétt Sýnar áður.
Sandeyingar virðast hins vegar almennt vilja fá leið 2A, sem þýddi mun styttri veg á yfirborði Sandeyjar, en fjórum kílómetrum lengri göng til Suðureyjar og tíu milljörðum króna dýrari.
Bankastjóri Landsbanka Færeyja, Malan Johansen, sem er þeirra seðlabankastjóri, hafði í fyrra lýst þeim óvinsælu sjónarmiðum að jarðgöngin væru of stór biti fyrir færeyskt efnahagslíf. Í viðtali við Kringvarpið á laugardag ítrekar hún þá skoðun.
Fjármálaráðherra Færeyja, Ruth Vang, formaður Framsóknar, hefur sömuleiðis í viðtölum síðustu daga sagt göngin verða of dýr fyrir Færeyjar. Flokkur hennar hefur jafnframt innan landsstjórnar Færeyja náð að spyrða frumvarp um hækkun eftirlaunaaldurs við frumvarp um Suðureyjargöng.

Sem dæmi um hve andstaða Sandeyinga við ódýrustu jarðgangaleiðina er hörð er að flokksdeild Þjóðveldisflokksins á Sandey hótaði því í síðustu viku að segja skilið við flokkinn breyttu forystumenn hans ekki afstöðu sinni um leiðarvalið. Þá brást deild Fólkaflokksins á Sandey við með harðorðri ályktun gegn sinni eigin flokksforystu.

Andstaðan kemur ekki á óvart. Fjögur flokksfélög á Sandey mótmæltu sameiginlega þessari veglínu á síðasta ári en félögin eru Sandoyar Tjóðveldisfelag, Sandoyar sýðslu Javnaðarfelag, Sandoyar Fólkafloksfelag og Sandoyar Sambandsfelag.
Andstaðan er ekki bundin við íbúa Sandeyjar. Umhverfissamtök, samtök bænda og samtök stangveiðimanna í Færeyjum hafa sameinast í mótmælum. Félögin segja að veglínan sem flokkarnir völdu muni spilla einu stærsta votlendi og fuglaparadís Færeyja, einu helsta veiðivatni og jafnframt skerða eitt besta ræktarland eyjanna.
„Eyðileggið ekki Sandeyna“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu sem félögin fimm sendu frá sér í síðustu viku en þau eru Føroya Náttúru- og Umhvørvisfelag, Føroya Fuglafrøðifelag, Hagafelagið, sem eru samtök bænda, Føroya Sílaveiðifelag, sem er hagsmunafélag stangveiðimanna, og Veltan, félag garðyrkjubænda á Sandey. Hvetja þau til þess að leið 2A verði frekar valin, hún sé illskárri.
Það eru raunar raddir á Sandey sem vilja heldur ekki leið 2A heldur verði leiðin milli gangamunnanna tveggja lögð að mestu í göngum undir Sandey svo að vegurinn verði helst hvergi uppi á yfirborði.
Heimild: Visir.is











