Home Fréttir Í fréttum 2000 manna byggð á flugvallarlandi

2000 manna byggð á flugvallarlandi

64
0
Skipulagsvinna vegna uppbyggingar á sautján hektara lóð við Skerjafjörð hefst í haust. Allt að 800 gætu verið byggðar á svæðinu. Íbúar í hverfinu hafa áhyggjur af umferðarmálum þegar byggðin rís.

Reykjavíkurborg átti land upp á sex og hálfan hektara í Skerjafirðinum, í jaðri norðaustur-suðvestur flugbrautarinnar. Nú hefur verið gengið frá kaupunum á afgangnum af landinum sem eru ríflega ellefu hektarar. Samtals á því að byggja á rúmum sautján hekturum. Með þessu eru norðaustur-suðvestur flugbrautin nú formlega lokuð.

<>

Byggðin mun ná yfir býsna stórt svæði. Hún hefst í beinu framhaldi af byggðinni sem nú er í Skerjafirðinum og nær hálfa leið að norður-suður flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Á þessu svæði á samkvæmt aðalskipulagi að byggja um 800 íbúðir, sem gæti þýtt 2 þúsund manna byggð.

Borgarstjóri hefur óskað eftir tillögu frá embættismönnum um hvernig staðið verði að skipulagi og undirbúningi uppbyggingarinnar. Þær tillögur eiga að liggja fyrir í síðasta lagi 10. september, og þá hefst væntanlega skipulagsvinna vegna byggðarinnar. Áhersla virðist á að hraða uppbyggingu, þar sem nefnt er í fréttatilkynningu borgarinnar að henni sé ætlað að koma til móts við aukna þörf fyrir húsnæði.

Íbúar í Skerjafirðinum hafa nokkrar áhyggjur af nýju byggðinni. Meðal annars hafa þeir áhyggjur af því að miklir þungaflutningar verði um Einarsnesið, sem er þröngt gata. Ívar Pálsson formaður íbúasamtaka Skerjafjarðar segir að ljóst sé að ásýnd hverfisins breytist til muna þegar tvö þúsund manna byggð bætist við sex hundruð og fimmtíu íbúa hverfi, og hefur gagnrýnt borgina fyrir lítið samráð við áformin.

Ekki náðist í Hjálmar Sveinsson formann umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar til að fá nánari upplýsingar um undirbúning uppbyggingarinnar.

Heimild: Ruv.is