Home Fréttir Í fréttum Forteikningar að nýjum Seyðisfjarðarskóla kynntar íbúum

Forteikningar að nýjum Seyðisfjarðarskóla kynntar íbúum

41
0
Framtíðar skólabyggingin eins og núverandi hönnun gerir ráð fyrir. Mynd Múlaþing

Hönnun og útlit nýs Seyðisfjarðarskóla hefur tekið töluverðum breytingum frá frumtillögum þeim er kynntar voru um þetta leyti á síðasta ári. Þær hugmyndir allar voru kynntar fyrir íbúum á fundi í firðinum í vikunni.

Uppfærðar tillögurnar nú eru mun metnaðarfyllri en gengið var út frá í upphafi ferlisins. Stærsta breytingin er sérstök tengibygging milli skólans, menningarmiðstöðvarinnar Herðubreiðar og íþróttahússins en með þeim hætti stækkar grunnrými skólans sjálfs en styður jafnframt við samnýtingu skólans við menningar- og íþróttahúsið.

Tengibyggingin skal hýsa stórt meginanddyri hússins en þar verður einnig eldhús skólans og matsalur, fundarsalur og salerni auk tónlistarstofu. Verður því mun rýmra í hinum byggingum hússins en annars hefði verið raunin með upphaflegu tillögunum.

Útboð hugsanlega með vorinu

Á meðfylgjandi tölvuteikningu má sjá með hvaða hætti hönnuðir sjá bygginguna fyrir sér á þessu stigi en tekið skal fram að hér er um forteikningar að ræða og hönnun ekki að fullu lokið enn. Þeirri vinnu mun vart ljúka fyrr en síðar í vetur svo útboðsgögn verða vart fullgerð fyrr en með vorinu en þá gætu framkvæmdir hafist síðar það sumar.

Gildandi fjárhagsáætlun Múlaþings gerir ráð fyrir að þeim muni vart ljúka fyrr en í fyrsta lagi 2028 en sú fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 50 milljónum króna til verksins yfirstandandi ár, 225 milljónum það næsta, 450 milljónum 2027 og 95 milljónum ári síðar.

Má ekki seinka meira

Heimastjórn Seyðisfjarðar lýsti fyrir mánuði síðan áhyggjum sínum af niðurskurði til verksins samkvæmt uppfærðri fjárfestingaráætlun sveitarfélagsins sem kynnt var um það leyti. Þar var framlag til verksins skorið niður um 70% á næsta ári sem heimastjórnarfólk taldi líklegt til að seinka opnun nýs skóla töluvert eins og lesa má um hér.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar, segir að þetta geti tekið breytingum á milli fyrri umræðu um fjárfestingaráætlun og þeirri síðari.

„Það sem þarf að gerast núna á milli fyrri og seinni umræðu er að það þarf að áætla hvaða fjármunir eru að fara í hvaða verkefni og það hangir töluvert á því hver staða hvers verkefnis er á þeim tímapunkti.

Byggingarnefnd Seyðisfjarðarskóla fundaði í síðustu viku og þar kom fram að það væri mikilvægt að fá fram nákvæma tímalínu; það er að segja hve mikið sé eftir af hönnun því það þurfum við að vita til að geta boðið verkið út og það aftur ræður því hvað verkið nær áfram á komandi ári. Þeirra upplýsinga er verið að afla núna og það ekki útilokað að áætlanir um framlög taki breytingum í kjölfarið.“

Heimild: Austurfrett.is