Home Fréttir Í fréttum ÍAV tapaði yfir 900 milljónum

ÍAV tapaði yfir 900 milljónum

123
0
Sigurður R. Ragnarsson er stjórnarformaður ÍAV. Ljósmynd: Eva Björk Ægisdóttir

Rekstrartekjur ÍAV jukust um 19,3% og námu 16,5 milljörðum króna í fyrra.

Íslenskir aðalverktakar, ÍAV, töpuðu 936 milljónum króna árið 2024 samanborið við 527 milljóna tap árið 2023, samkvæmt nýbirtum ársreikningi.

Stjórn ÍAV, elsta starfandi verktakafyrirtæki landsins, segir að reksturinn á árinu 2024 hafi reynst krefjandi, meðal annars vegna ytri aðstæðna.

„Auk þess höfðu aukið flækjustig verkefna, breytingar á verkframkvæmdum og þröng tímamörk í samningum áhrif á framvindu og afkomu. Launahækkanir síðustu ára ásamt mikilli samkeppni um starfsfólk hafa leitt til launaskriðs á vinnumarkaði, sem hefur haft áhrif á kostnað í rekstri.“

Félagið segir að þrátt fyrir þessar áskoranir hafi verkefnastaða þess við árslok verið sterk og eiginfjárhlutfall 20,3%.

Rekstrartekjur ÍAV jukust um tæplega 2,7 milljarða króna milli ára, eða um 19,3% og námu 16,5 milljörðum króna. Rekstrartap fyrir afskriftir (EBITDA) var neikvæð um 662 milljónir, samanborið við 19 milljóna EBITDA-tap árið áður.

„Stjórnendur vinna að því að bæta rekstur félagsins með auknu utanumhaldi verkefna, uppbyggingu innviða og öðrum hagræðingaraðgerðum.“

Skjáskot af Vb.is

Meðal helstu verkefna sem félagið tók þátt í á síðasta ári eru íbúðablokkir fyrir Blæ leigufélag, knatthús Hauka, stækkun og endurbætur á húsnæði Seðlabankans, höfuðstöðvar Landsbankans, tvöföldun Reykjanesbrautar, og vatnagarðar við Grindavík.

„Stjórnendur gera ráð fyrir að velta félagsins aukist á árinu 2025 með áframhaldandi góðri verkefnastöðu og áherslu á hagkvæma framkvæmd verka.“

Eignir ÍAV námu ríflega 5 milljörðum króna í árslok 2024 og eigið fé var um 1.031 milljónir. Skuldir námu 4 milljörðum, en þar af voru skuldir við tengd félög um 1.158 milljónir. ÍAV er í eigu svissnesku verktakasamsteypunnar Marti Holding.

Virði fasteigna félagsins var fært upp um 455 milljónir við sérstakt endurmat í desember 2024 og voru þær bókfærðar á 967 milljónir í árslok 2024.

Heimild: Vb.is