Heidelberg Materials, sem hefur áform um námuvinnslu hér á landi, er á lista Sameinuðu þjóðanna yfir fyrirtæki með starfsemi í landtökubyggðum Ísraela. Fyrirtækið hefur andmælt skráningunni því það reki enga starfsemi þar lengur.
Heidelberg Materials hefur andmælt skráningu félagsins á lista Sameinuðu þjóðanna yfir fyrirtæki með starfsemi í landtökubyggðum Ísraela í Palestínu. Talsmaður Heidelberg á Íslandi segir skráninguna ekki hafa áhrif á starfsemi fyrirtækisins hér á landi.
Heidelberg Materials er alþjóðlegt fyrirtæki sem hefur áform um námuvinnslu hér á landi. Það er meðal 158 fyrirtækja á lista sem Sameinuðu þjóðirnar birtu á dögunum yfir fyrirtæki með starfsemi í landtökubyggðum Ísraela.
Þorsteinn Víglundsson, talsmaður Heidelberg á Íslandi, segir dótturfélag Heidelberg Materials hafa rekið námuvinnslu í einni landtökubyggð. Henni hafi hins vegar verið hætt fyrir tveimur árum síðan. Því hafi félagið andmælt skráningunni og krafist þess að vera tekið af listanum.
„Félagið hefur alls staðar lagt metnað í að starfa eftir lögum og reglum á hverjum stað og að sýna samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni. Með hliðsjón af þeim metnaði var meðal annars tekin ákvörðun um að afleggja þessa starfsemi á landtökubyggðunum á sínum tíma,“ segir Þorsteinn.
„Skráningunni hefur verið andmælt og það er engin starfsemi af hálfu Heidelberg Materials á landtökusvæðum í Ísrael í dag. […] Hún er ekki í samræmi við þann metnað sem lagður hefur verið í samfélagslega ábyrgð. Það er ástæðan fyrir því að starfsemin var aflögð á sínum tíma og þess vegna hefur félagið komið andmælum sínum á framfæri gagnvart Sameinuðu þjóðunum.“
Þorsteinn segir skráninguna ekki vera áhyggjuefni fyrir Heidelberg á Íslandi.
„Ég get ekki séð að það eigi að hafa nein áhrif hér á landi.“
Heimild: Ruv.is