Fjöldi íbúða verður í kringum 170 og ráðgert er að framkvæmdir muni taka um fjögur ár.
Reitir fasteignafélag hf. og verktakafyrirtækið Þarfaþing ehf. hafa undirritað samning um alverktöku vegna byggingar fyrsta áfanga Kringlureits. Þetta kemur fram í tilkynningu Reita til Kauphallarinnar.
Samningsfjárhæð verksins nemur rúmum 10 milljörðum króna. Fjöldi íbúða verður í kringum 170. Ráðgert er að framkvæmdir muni taka um fjögur ár.
Reitir og Þarfaþing undirrituðu viljayfirlýsingu fyrir rúmum mánuði síðan þar sem lýst var yfir sameiginlegum vilja til að ganga til samninga um samstarf vegna uppbyggingar íbúðarhúsnæðis með bílageymslu á Kringlureit á grundvelli þeirra forsendna sem mótast höfðu í samningaviðræðum aðila áður.
„Verkið sem um ræðir felur í sér alverktöku við hönnun og byggingu fullbúins íbúðarhúsnæðis og bílageymslu. Hin nýja íbúðabyggð við Kringluna byggir á metnaðarfullu skipulagi og samræmdum skilmálum innan hverfisins,“ segir í tilkynningu Reita.
Borgarráð samþykkti í lok mars samkomulag við Reiti um fyrsta áfanga uppbyggingar á Kringlusvæðinu.
Samkvæmt hugmynd lóðarhafa er gert ráð fyrir að byggðar verði um 418 íbúðir auk atvinnuhúsnæðis á lóðunum. Þá sé um að ræða rúma 56 þúsund fermetra af íbúðafermetrum og rúmlega 11 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði.
Niðurrif á gamla Morgunblaðshúsinu á Kringlureitnum hófst í síðasta mánuði. Í fjárfestakynningu Reita í síðasta mánuði er bent á að auglýsing á deiliskipulagi sé lokið og frestur til þess að skila athugasemdum vegna skipulagsins hafi runnið út í sumar.
Fasteignafélagið hefur lýst því yfir að til lengri tíma litið muni þróunarverkefni, líkt og á Kringlureitnum, standa undir meirihluta þess vaxtar sem félagið hefur sett sér markmið um í vaxtarstefnu sinni.
Heimild: Vb.is