Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar ekki stöðvaðar

Framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar ekki stöðvaðar

9
0
Lón Hvammsvirkjunar kæmi beint fyrir neðan bæinn Haga. RÚV – Kveikur

Náttúruverndarsamtök kærðu ákvörðun Rangárþings ytra um framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Úrskurðarnefnd sagði áhrifasvæði framkvæmdanna þegar hafa verið raskað. Verulegt fjárhagslegt tjón geti hlotist af stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu Náttúrugriða og Náttúruverndarsamtaka Íslands um að ákvörðun um framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar verði felld úr gildi. Samtökin vildu að undirbúningsframkvæmdir yrðu stöðvaðar.

Samtökin kærðu ákvörðun Rangárþings ytra um að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi, meðal annars á grundvelli þess að þátttökuréttur sem almenningi var veittur við mat á áhrifum á grunnvatn og eldhraun hafi ekki samrýmst lögum. Virkjunarleyfi sem veitt var til bráðabirgða sé haldið slíkum annmörkum að það geti ekki verið grundvöllur framkvæmdaleyfis.

Framkvæmdin væri til þess fallin að raska jörð og lífríki og hefði mikil neikvæð og varanleg umhverfisáhrif. Þar að auki telja þau oddvita sveitastjórnar vanhæfan og að ómálefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðuninni. Sveitarfélagið vísar því á bug og segir ákvörðunina hafa verið í samræmi við lög, reglugerðir, umhverfismat og skipulagsáætlanir.

Öllum sjónarmiðum kærenda sé hafnað lið fyrir lið.

Framkvæmdum ljúki í janúar

Í úrskurði nefndarinnar segir að jafnvel þótt ýmis álitamál séu uppi og að efnisleg rök séu að baki kæru verði ekki hjá því litið að áhrifasvæði framkvæmdanna hafi þegar verið raskað. Verulegt fjárhagslegt tjón geti hlotist af stöðvun framkvæmda og þær virðist vera í samræmi við deiliskipulag.

Þá liggi fyrir bráðabirgðavirkjunarleyfi sérhæfðs leyfisveitanda, Umhverfis- og orkustofnunar. Framkvæmdir séu yfirstandandi og áætlað að þeim verði lokið í síðasta lagi í janúar.

Framkvæmdaleyfi sem gefið var út 18. ágúst til bráðabirgða fellur út gildi í síðasta lagi 11. janúar á komandi ári. Í leyfinu kemur fram að það sé bundið við undirbúningsframkvæmdir Hvammsvirkjunar sem þegar séu hafnar og hafi ekki áhrif á vatnshlot.

Í skoðanakönnun Maskínu fyrr í mánuðinum sögðust þrír af hverjum fimm landsmönnum vera hlynntir Hvammsvirkjun. 35 prósent voru mjög fylgjandi en tíu prósent mjög andvíg.

Heimild: Ruv.is