Kaþólska kirkjan á Íslandi hefur stofnað nýja sókn í biskupsdæminu en það er Sókn hins heilaga kross sem er staðsett á Selfossi.
Þetta kom fram í prédikun sr. Denis O’Leary, sóknarprests í Maríusókn í Breiðholti og á Suðurlandi, við messu sem haldin var í kapellunni í Smáratúni 12 á Selfossi sl. sunnudag á Krossmessu. Allur suðurhluti landsins, til Kirkjubæjarklausturs og jafnvel lengra, tilheyrir nýju sókninni.
Nafn nýju sóknarinnar tengist sögu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi því að í Kaldaðarnesi í Sandvíkurhreppi var kross sem pílagrímar stönsuðu hjá á leið sinni til Skálholts. Hann var einnig virtur af heimamönnum, sérstaklega öldruðum og sjúkum, sem trúðu því að hann hefði lækningamátt.

Séra Mercurio Rivera III, núverandi aðstoðarprestur á Ásbrú og enn áður aðstoðarprestur í Maríukirkju og á Selfossi, hefur verið skipaður stjórnandi hinnar nýju sóknar. Séra Mercurio er frá Filippseyjum og hefur starfað sem prestur hjá kaþólsku kirkjunni á Íslandi frá því í ársbyrjun 2021. Hann verður boðinn velkominn til starfa í messu sunnudaginn 5. október í kapellunni að Smáratúni 12.
Heimild: Sunnlenska.is