Home Fréttir Í fréttum Fá nýja glugga í stað þeirra gölluðu eftir áralanga baráttu

Fá nýja glugga í stað þeirra gölluðu eftir áralanga baráttu

31
0
Mynd: RÚV

Skipt verður um glugga sem mígláku í fjölbýlishúsi í Borgarbyggð. Íbúar höfðu barist árum saman við framleiðanda, seljanda og verktaka um hver skyldi bæta skaðann.

Íbúar í fjölbýlishúsi við Borgarbraut í Borgarnesi hafa fengið nýja glugga og fengið greitt fyrir uppsetningu þeirra. Íbúarnir hafa árum saman barist við verktaka, framleiðanda og seljanda glugganna sem upphaflega voru notaðir við byggingu hússins. Þeir þoldu ekki íslenskar aðstæður og lak inn í íbúðirnar.

Morgunblaðið greinir frá því í dag að byrjað sé að skipta um glugga og lagfæra húsið á grundvelli dómsáttar. Hún fól í sér að danska fyrirtækið Ideal Combi lagði þeim til nýja glugga og greiddi 76 milljónir til að standa straum af kostnaði við skiptin. Að auki greiddi Húsasmiðjan á sextándu milljón, TM tryggingar á fimmtu milljón og fyrirtækið Hús og lóðir sem byggði húsið afhendir nýjan gólfdúk og ábyrgist allt að átta millljónir vegna gluggaskiptanna

Fréttastofa og Kastljós fjölluðu um baráttu íbúanna í fyrra og hittifyrra. Þeir höfðu þá árangurslaust reynt að fá bætt úr göllum á húsnæði sínu. Íbúarnir kvörtuðu undan hriplekum gluggum og mígleku þaki auk gallaðs gólfefnis.

Fyrirtækin sem framleiddu, seldu og settu gluggana í húsið deildu um hver bæri ábyrgð og vísaði hvert á annað.

„Þannig að við erum bara endi á einhverri keðju og lendum illa í því,“ sagði Guðmundur Eyþórsson, formaður húsfélagsins, við RÚV fyrir tæpum þremur árum.

Heimilf: Ruv.is