Áætlað er að framkvæmdir við endurnýjun sundlaugarsvæðisins í Reykholti í Bláskógabyggð hefjist strax eftir réttir í haust. Gert er ráð fyrir að verkinu ljúki í september 2026.
Aðeins eitt tilboð barst í verkið þegar það var opnað þann 18. júní sl., en að verkefninu standa fyrirtækin Norðanmenn ehf., Rörið ehf. og Flúðaverktakar ehf. Tilboðið var yfirfarið og endurskoðað af bjóðendum og lagt fyrir sveitarstjórnarfund þann 17. júlí síðastliðinn. Var það samþykkt og sveitarstjóra falið að ganga frá samningi við verktakana.
Heildarverð verkefnisins samkvæmt endurskoðuðu tilboði er 713,4 milljónir króna, sem er nokkuð umfram kostnaðaráætlun sveitarfélagsins sem hljóðaði upp á 644,6 milljónir króna.
Sundkennsla við Reykholtsskóla mun fara fram í lotu í upphafi skólaárs nú í ágúst, áður en sundlaugin lokar vegna framkvæmda. Þá mun skólasundið færast annað meðan á verkinu stendur.
Heimild: Dfs.is