Framkvæmdir við þriðja áfanga Arnarnesvegar eru í fullum gangi og unnið við marga verkþætti í einu. Meðal annars er verið að setja upp undirslátt fyrir steypumót vegbrúar yfir Breiðholtsbraut.

Undanfarið hefur verið unnið að því að setja upp undirslátt fyrir steypumótin yfir syðri akbraut (nýja akbraut) Breiðholtsbrautar. Þegar því er lokið verður umferðin færð yfir á syðri akbrautina á meðan settur verður upp undirsláttur fyrir steypumótin yfir nyrðri akbrautina (gömlu akbrautina) en sú akbraut verður lokuð á meðan. Stefnt er á að steypa vegbrúna í september.

Við suðurenda framkvæmdanna við Rjúpnaveg er unnið við umfangsmiklar og flóknar breytingar á stórum lögnum fyrir heitt og kalt vatn. Vegna tafa í lagnamálum er verið að gera nýja bráðabirgða gönguleið yfir Arnarnesveg og Rjúpnaveg.

Við suðurendann stendur einnig yfir undirbúningur fyrir nýtt hringtorg sem tengir Arnarnesveg og Rjúpnaveg. Þá er verið að sprengja fyrir nýjum undirgöngum sem munu liggja undir Arnarnesveg norðan við fyrirhugað hringtorg.
Öllum sprengingum í verkinu á að vera lokið fyrir lok júlímánaðar.

Steyptir hafa verið stöplar nýrrar göngu- og hjólabrúar yfir Arnarnesveg milli Seljahverfis í Reykjavík og Kórahverfis í Kópavogi. Næstu skref verða að slá upp fyrir sjálfri brúnni og ganga frá göngu- og hjólastígum að henni.

Undirgöng undir Breiðholtsbraut eru tilbúin að mestu en beðið er eftir að Veitur tengi heitt vatn og rafmagn að þeim. Að því loknu verður hægt að malbika stíga að og í gegnum göngum og ganga frá lýsingu.

Framkvæmdir við göngu- og hjólabrúna yfir Elliðaá á kafla sem kallaður er Dimma, ganga vel. Eftir er að ganga frá yfirborði brúarinnar, setja handrið og tengja göngustíga við hana. Að því loknu verða stígarnir og brúin malbikuð.

Landmótun í Vetrargarðinum er að ljúka og búið að sá í stærstan hluta hans. Annar frágangur og uppbygging Vetrargarðsins er á höndum Reykjavíkurborgar.

Heimild: Vegagerðin