Verslunarmenn við Laugaveg eru afar ósáttir vegna framkvæmda á Vatnsstíg milli Laugavegar og Hverfisgötu, sem hefur töluverð áhrif á umferð viðskiptavina inn í verslanirnar.
Margir kaupmenn hafa beðið spenntir eftir sumri þegar mest umferð er á Laugavegi en óttast nú að salan í sumar verði mun minni en gert var ráð fyrir.
Framkvæmdirnar á Vatnsstíg hófust í mars en í apríl færðust þær upp á Laugaveg. Þær ná inn á göngugötuna á Laugavegi og hafa verslunarmenn orðið varir við að fólk veigri sig við að ganga á þeim hluta götunnar þar sem framkvæmdirnar eru. Það hafi óhjákvæmilega áhrif á rekstur verslananna.
Lydía Kims er fjármálastjóri Rammagerðarinnar en ein af verslunum fyrirtækisins stendur við Laugaveg 31. Hún segir að þau finni þegar fyrir áhrifum framkvæmdanna. Tímasetningin sé afar óheppileg og allar framkvæmdir á miðjum Laugavegi yfir sumartímann séu taktlausar. Bendir hún á að forsvarsmenn borgarinnar mættu meta betur hvaða samfélagslegu áhrif framkvæmdirnar hafi.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is