Innviðaráðherra segir að þeir þrír milljarðar króna sem Vegagerðin fær með fjáraukalögum fari meðal annars í að berjast gegn bikblæðingum. Ástandið hér á landi sé verra en annars staðar vegna hitabreytinga.
Innviðaráðherra segir að þeir þrír milljarðar króna sem Vegagerðin fær með fjáraukalögum fari meðal annars í að berjast gegn bikblæðingum. Ástandið hér á landi sé verra en annars staðar vegna hitabreytinga.
Bikblæðingar hafa gert mörgum ökumönnum gramt í geði undanfarna blíðviðrisdaga. Bikið kemur úr vegklæðingum en ekki malbiki, sagði sérfræðingur hjá verkfræðistofunni Eflu í hádegisfréttum. Vegklæðing er algengasta slitlagið á þjóðvegum landsins og mun ódýrara en malbik, sem alla jafna blæðir ekki úr. Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra segir slitnar og lélegar klæðingar tengjast innviðaskuldinni.
„Þetta er klárt mál, þetta tengist náttúrlega því að þetta eru gamlar klæðningar og tengist þannig viðhaldsskuldinni. En við í ríkisstjórninni ætlum að setja meiri pening í viðgerðir eða viðhald á vegum og það verða þrír milljarðar núna í fjárauka sem eiga að fara í viðhald á vegum og það verður aukinn þungi settur í klæðningar.“
Eyjólfur segist ætla að ræða við Vegagerðina til að fá nánari skýringar og að fyrir utan fyrrnefnda þrjá milljarða króna í fjáraukalögum verði í fjárlögum næstu ára meira fé sett í viðhald. Bikblæðingar hér séu algengari en í öðrum löndum.
„Þetta mun vera annars staðar líka en þetta er óvenjumikið á Íslandi meðal annars vegna hitabreytinga.“
Heimild: Ruv.is