
Hjón í Hafnarfirði fá ekki frekari bætur vegna verulegra galla í einbýlishúsi sem þau keyptu fyrir um 16 árum. Var komin veruleg mygla í útveggi eignarinnar vegna þess að frágangur var ekki í samræmi við hönnunargögn sem meðal annars lokaði loftflæði að mestu inn undir klæðningu. Matsmaður hafði komist að þeirri niðurstöðu að kostnaður við úrbætur væri um 21,6 milljónir.
Húsið var byggt á árunum 2003 og 2004 fyrir upphaflega eigendur. Seldu þau svo hjónunum eignina árið 2008 fyrir 54 milljónir, en um er að ræða 206 fermetra einbýlishús.
Áður verið ágreiningur um galla
Hjónin sem keyptu húsið gerðu fyrst athugasemdir við ætlaða galla á fasteigninni árið 2011 og var þá framkvæmt mat þar sem fram kom að úrbætur á metnum ágöllum kostuðu samtals 4,2 milljónir. Var það kostnaður við tilfæringar svo unnt væri að gera lokaúttekt á fasteigninni, kostnað við úrbætur á rakasperru, úrbætur á frágangi samskeyta á þakköntum og þakpappa og rakaþéttingu og að lokum lagfæringar á skemmdum af völdum leka og úrbætur á hitakerfi hússins.
Fór það svo að tryggingafélag greiddi 3,3 milljónir úr starfsábyrgðartryggingu annars byggingarstjóra fasteignarinnar vegna hluta gallanna. Var það svo dómur héraðsdóms að hinn byggingarstjórinn og seljendurnir ættu að greiða rúmlega hálfa milljón vegna þess sem eftir stóð, vegna ófullnægjandi frágangs á rakavörn í bílskúr fasteignarinnar.
Fluttu úr húsinu vegna slæmrar heilsu
Engin samskipti áttu sér stað á milli fólksins þangað til í júní 2022. Sögðu hjónin að þá hefði heilsa fjölskyldunnar í nokkurn tíma verið slæm og farið hafi verið að skoða með myglu. Ekkert hafi í fyrstu fundist, en þau á endanum ákveðið að flytja úr eigninni vegna slæmrar líðanar.
Í kjölfarið hafi þau svo komist að því að röng uppsetning á einangrun útveggja hafi orðið þess valdandi að raki komst að köldum útveggjum fasteignarinnar þannig að mygla myndaðist. Töldu þau fyrst að kostnaður við úrbætur gæti numið tveimur milljónum en hækkaði svo í þrjár milljónir og um 10 milljónir við að útrýma myglu.
Mat úrbætur vegna ágalla á um 21,6 milljónir
Fóru þau síðan fram á að fá dómskvaddan matsmann og áætlaði hann að heildarkostnaður við úrbætur vegna ágalla næmi um 21,6 milljónum. Var að lokum krafa hjónanna upp á umræddar 21,6 milljónir auk 3,4 milljóna í útlagðan kostnað við úrbætur og 7,6 milljónir vegna förgunar innanstokksmuna og fatnaðar, auk 2 milljóna í miskabætur.
Bæði Héraðsdómur Reykjaness og nú Landsréttur hafa hins vegar komist að því að kröfur hjónanna vegna galla séu fyrndar þar sem kaupandi glati rétti til að bera fyrir sig vanefnd ef ekki er tilkynnt um galla eða aðrar vanefndir innan fimm ára frá afhendingu fasteignar, nema seljandi hafi ábyrgst hana í lengri tíma.
Löngu fyrnt en deilt um stórkostlegt gáleysi
Þar sem þau tilkynntu um ætlaðar vanefndir tæplega 14 árum eftir afhendingu er niðurstaða dómstólanna að réttur þeirra hafi löngu verið fallinn niður nema sýnt sé að seljandi hafi ábyrgst eignina í lengri tíma eða sýnt af sér stókostlegt gáleysi eða framferði sem stríði gegn heiðarleika og góðri trú.
Töldu kaupendur að seljendurnir hefðu sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og framferðið ekki verið heiðarlegt eða í góðri trú. Er vísað til að eignin hafi verið keypt fokheld að innan og þau lokið við innri frágang. Þannig hafi seljendurnir borið ábyrgð á frágangi á loftun þaks og frágangi á einangrun og múrun útveggja að innan. Sá frágangur hafi ekki verið í samræmi við viðurkennd vinnubrögð og verið ástæða myglumyndunar.
Hins vegar kemur fram að fólkið sem seldi hafi ráðið til sín iðnmeistara á viðeigandi sviðum til að annast fráganginn að innan og byggingarstjóra til að hafa yfirumsjón og eftirlit með þeirri framkvæmd á meðan hún stóð yfir. Telur dómurinn ósannað að fólkið hafi að einhverju leyti sjálft annast þá framkvæmd og að þau hafi mátt treysta því að þeir iðnmeistarar sem þau réðu til að annast framkvæmdina, inntu vinnu sína af hendi í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru og að byggingarstjóri hefði virkt eftirlit með því.
Engin lokaúttekt hafði farið fram við söluna
Einnig er vísað í fyrri dóminn þar sem fólkinu voru dæmdar bætur árið 2013. Kemur þar fram að þegar kaupsamningur hafi verið gerður hafi kaupendur staðfest að hafa kynnt sér gögn um að byggingarstig eignarinnar væri skráð á 4. stig, þ.e. sem fokheld bygging. Því er ekki fallist á að seljendurnir hafi leynt upplýsingum um lokaúttekt sem hafði ekki farið fram.
Telur dómurinn því ekkert komið fram sem sýni fram á stórkostlegt gáleysi seljenda og telst kröfutímabilið fyrnt. Undir þetta tekur Landsréttur. Samtals var kaupendunum gert að greiða seljendunum samtals 3,2 milljónir í málskostnað á báðum dómstigum.
Heimild: Mbl.is