
Fjarðabyggð þarf að kaupa fasteign á miðbæjarlóð á Reyðarfirði á 140 milljónir samkvæmt dómi héraðsdóms og fær ekki að hætta við kaupin þó að verðið sé tvöfalt það sem talið var. Lóðin er mikilvæg til að uppbygging gangi eftir.
Fjarðabyggð þarf að kaupa fasteign á miðbæjarlóð á Reyðarfirði á tæpar 140 milljónir króna samkvæmt dómi Héraðsdóms. Sveitarfélagið hélt að eignin væri helmingi ódýrari þegar það tilkynnti um nýtingu forkaupsréttar, en dómurinn taldi óheimilt að hætta við.
Sorpþjónusta víkur fyrir miðbæjaruppbyggingu
Á Reyðarfirði stendur til að gera bragarbót og við Hafnargötu á að byggja miðbæjarkjarna á ónýttri lóð. Á næstu lóð við hliðina er starfsemi sem illa hentar í miðbæ. Terra leigir þar skemmu og 2200 fermetra lóð undir sorpþjónustu.
Fjarðabyggð vill koma þeirri starfsemi úr miðbænum og þegar lóðin var sameinuð annarri var gerður lóðaleigusamningur þar sem Fjarðabyggð átti forkaupsrétt.
Í september 2022 tilkynnti Fjarðabyggð að hún vildi nýta réttinn og taldi að borga þyrfti um 70 milljónir fyrir skemmu og lóð miðað við fasteignamat. Eigandinn var ekki sáttur og dómkvaddir matsmenn töldu ári síðar að sanngjarnt og eðlilegt verð væri tæpar 140 milljónir eða um tvöfalt fasteignamat. Fjarðabyggð vildi þá falla frá forkaupsrétti en eigandinn taldi það óheimilt og stefndi Fjarðabyggð.
Fjarðabyggð gat ekki hætt við eða frestað kaupum
Héraðsdómur Austurlands hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að ígildi kaupsamnings hafi komist á með yfirlýsingu um nýtingu forkaupsréttar. Aðferðin við að ákveða verðið sé í samræmi við yfirlýsingu frá 2012. Fjarðabyggð þarf því að kaupa eignina á tæpar 140 milljónir króna og greiða eigandanum 1,2 milljónir í málskostnað.
Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er óvíst hvort málinu verður áfrýjað. Með kaupunum fær sveitarfélagið leigutekjurnar og eignast mikilvæga lóð í miðbænum. Þar verður mögulega hægt að selja byggingarrétt og auka tekjur, meðal annars með auknum fasteignagjöldum.
Heimild: Ruv.is