
Að mati flugmanna eru flugvélastæðin heldur þröng við hina nýju 25 þúsund fermetra austurálmu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Að þeirra sögn virðist hönnun þessara stæða hafa misfarist, þar sem erfitt er vegna þrengsla að koma nauðsynlegum tækjum og búnaði fyrir til að þjónusta flugvélarnar.
Heildarkostnaður Isavia vegna verksins er um 30 milljarðar króna, en með opnun álmunnar jókst flatarmál flugstöðvarinnar um 30 þúsund fermetra. Við bættust sex ný brottfararhlið, þar af fjögur með landgangi.
Hönnunin gerir ráð fyrir að flugvélastæðin geti ýmist sinnt tveimur breiðþotum eins og Boeing 767 eða fjórum minni flugvélum eins og Boeing 737 Max. Flugvélastæði eins og þessi eru jafnan hönnuð fyrir vélar með 36 metra vænghaf.
Flugmenn sem Morgunblaðið hefur rætt við telja að umrædd stæði séu undir þeim mörkum enda virðist erfitt að athafna sig við þau.
Heimild: Mbl.is