
Bygging á nýrri skólpstöð við Lagafljót kostar allt að hálfan milljarð og þurfi að uppfylla auknar kröfur um hreinsun gæti kostnaðurinn aukist um milljarð til viðbótar.
Eldra kerfi gat hreinsað betur en talsvert rann fram hjá
Bygging nýs skólphreinsivirkis fyrir Egilsstaði og Fellabæ var stórt kosningamál fyrir þar síðustu sveitarstjórnarkosningar og var deilt um hvort nýtt hreinsivirki yrði fram- eða afturför í skólpmálum. Metnaður var á sínum tíma lagður í þriggja þrepa hreinsun og fór skólpið nánast sem drykkjarhæft vatn í Eyvindará. En kerfið var aldrei fullklárað, rigningarvatn blandaðist saman við svo gjarnan rann um yfirfall og framhjá hreinsun.
Nýtt og stærra hreinsivirki á að ráða við allt en verður ekki með fullnaðarhreinsun til að byrja með. HEF veitur hafa boðið út byggingu á stöðinni og þróm, og sjálft hreinsikerfið með beltasíum verður boðið út í sumar.
Lagarfljót er skilgreint sem viðkvæmur viðtaki þrátt fyrir jökulgrugg
HEF veitur þrýstu á um að straumþungt Lagarfljótið sem er jökulvatn yrði skilgreint öðruvísi svo ekki þyrfti tveggja þrepa hreinsun en varð ekki ágengt. Nú stefnir í að tveggja þrepa hreinsun verði lágmark líka út í sjó, samkvæmt nýjum kröfum ESB. Fáist ekki undanþágur blasir mikill kostnaður við sveitarfélögum.
Samkvæmt upplýsingum frá HEF veitum verður stöðin byggð þannig að hægt verði að byggja við og beltasíurnar verði uppi á annarri hæð svo hægt sé að hafa sjálfrennandi niður í seinna þrepið síðar, ef því verður bætt við. Kostnaður við fyrsta áfangann er 4-500 milljónir, en seinni áfangi ef farið verður í hann, yrði allt að milljarður til viðbótar.
Heimild: Ruv.is