
Borgarráð hefur samþykkt að hefja söluferli á fasteign Reykjavíkurborgar að Gufunesvegi 40. Þetta hús tilheyrði áður áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Það er illa farið og þarfnast verulegra endurbóta.
Fram kemur í greinargerð fjármála- og áhættustýringarsviðs til borgarráðs að Reykjavíkurborg eigi tvær fasteignir í Gufunesi sem hafa verið í útleigu í nokkur ár.
Önnur er 2.668 fermetra skrifstofubygging sem gert er ráð fyrir að Reykjavíkurborg eigi áfram og standa yfir viðgerðir og endurbætur á henni.
Hin er 1.632 fermetra verksmiðjuhús sem lagt er til að selja. Fram kemur að ástand hússins sé bágborið.
„Í Gufunesi hefur verið að mótast einstakt hverfi þar sem saman fara skapandi starfsemi og íbúðarhúsnæði,“ segir í greinargerðinni.
Þegar séu nokkur verkefni komin vel áleiðis og fleiri í farvatninu. Mikill áhugi hafi verið á því að koma að verkefninu og til þess að koma til móts við þær óskir er lagt til að Reykjavíkurborg bjóði til sölu Gufunesveg 40 undir verkefni sem falla undir hugmyndafræði svæðisins.
Um sölusamkeppni er að ræða þar sem blanda af hugmynd, þekkingu og reynslu verður metin til viðbótar við boðið kaupverð samkvæmt matslíkani, sem tekur til fjölda þátta. Sett verður lágmarksverð, 190 milljónir króna.
Tilboðsfrestur er til og með 3. apríl 2025. Nánari upplýsingar um eignirnar og kröfur til þátttakenda er að finna á vef Reykjavíkurborgar.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is