
Austfirska fyrirtækið Tandraberg á Eskifirði hefur frá því á fimmtudag unnið að því að fella næsta hluta skógarins í Öskjuhlíð svo hægt verði að opna báðar flugbrautir Reykjavíkurvallar að fullu. Það verk gæti klárast fljótlega í næstu viku.
Tré hafa nú verið, með hléum, felld í Öskjuhlíðinni síðan snemma í síðasta mánuði eftir að Samgöngustofa fyrirskipaði lokun austur-vestur flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli þann 6. febrúar þar sem hæð skógarins þótti ógna flugöryggi. Þó brautin hafi verið opnuð að nýju fyrir sjúkraflug þann 26. febrúar þarf töluvert fleiri tré að fella svo brottflug- og aðflug á þeirri braut verði tryggt og öruggt fyrir allar vélar.
Skeytið sem sprakk út
Að því verki standa starfsmenn Tandrabergs og gengur það verk æði vel að sögn eiganda þess Einars Birgis Kristjánssonar en fyrirtækið fékk verkið á heldur óvenjulegan hátt.
„Ætli það sé ekki rúmt ár síðan ég sendi Reykjavíkurborg fyrst skeyti um að við gætum tekið að okkur að fella og hirða tré Í Öskjuhlíðinni en það skeyti fór sennilega aldrei mjög hátt upp í kerfinu. Svo álpaðist ég til að skrifa einhvern facebook-status þarna um daginn um þetta mál og sá einhverra hluta vegna þá sprakk sá status aldeilis upp og fór um allar trissur. Svo fór að ég fékk hringingu daginn eftir frá Reykjavíkurborg og þannig kom þetta nú til. Ég er nú ekki vanur að fá miklar deilingar á efni sem ég set út á facebook en þetta ákveðna skeyti fór út um allt.“
Tréin send austur
Verkið snýst um að fella og koma brott þúsund trjám og hélt Einar sjálfur ásamt sínu fólki suður með tæki og tól til verksins seint í síðustu viku og hófust handa á fimmtudaginn var.
„,Þetta gengur mjög vel hjá okkur en það er eitthvað kringum þúsund tré sem við fellum og við tökum líka út það sem áður var búið að fella. Þaðan fer þetta beint í skip í Hafnarfirðinum og svo austur á land þar sem við reynum að finna góðar leiðir til að nýta þetta efni. Það hefur svo sem ekki verið ákveðið en þetta er mjög gott efni enda orðin nokkuð gömul þessi tré.“
Aðspurður hvenær vænta megi verkloka og þar með hugsanlega fulla opnun beggja brauta Reykjavíkurflugvallar segist Einar gæla við að þeir ljúki líklega við að fella öll tréin í enda vikunnar en einhvern tíma að auki taki að koma öllu efninu frá.
Heimild: Austurfrett.is