
Hafin er vinna við stækkun Sigöldustöðvar sem er ein af sjö vatnsaflsstöðvum Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu.
Um er að ræða stækkun um allt að 65 MW (megavött) með því að bæta við fjórðu vélinni í inntaksmannvirki, sem og fjórðu þrýstipípunni. Eftir stækkun er gert ráð fyrir að virkjunin skili allt að 215 MW afli, í stað þeirra 150 MW sem hún býr nú að.
Stöðin, sem var tekin í notkun árið 1978, var hönnuð á þann veg að hægt yrði að stækka hana síðar. Fyrsta útboð vegna framkvæmdanna verður haldið í þessari viku.
Landsvirkjun hefur nú fengið tvö framkvæmdaleyfi vegna Sigöldu, að sögn Ragnhildar Sverrisdóttur upplýsingafulltrúa.
Annars vegar var veitt leyfi 27. febrúar sl. vegna undirbúningsverkefna og hins vegar leyfi 7. mars sl. vegna stækkunarinnar sjálfrar.
Kæra veldur ekki frestun
Þessi framkvæmdaleyfi eru kæranleg til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, en kærufresturinn er einn mánuður frá því að leyfi var veitt. Hægt er að kynna sér leyfin og gögn þeim tengd á skipulagsgatt.is.
Kæra kemur ekki í veg fyrir að framkvæmdir hefjist, segir Ragnhildur.
Byrjað verður á undirbúningi af ýmsum toga. Síðar í þessum mánuði eða í byrjun apríl verður hafist handa við vatnsöflun fyrir vinnubúðasvæði. Gert er ráð fyrir að starfsfólk Landsvirkjunar og verktaka á svæðinu verði samtals um 140 þegar flest verður.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í gær.
Heimild: Mbl.is