Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi 40 þúsund tonna landeldi í Auðlindagarðinum

40 þúsund tonna landeldi í Auðlindagarðinum

48
0
Mynd: Audlindin.is

Jarðvegsframkvæmdir við nýja landeldisstöð Samherja fiskeldis ehf. í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi eru nú hafnar en verkefnið hefur verið í skipulags- og undirbúningsferli síðustu ár.

Um er að ræða laxeldisstöð sem samanstendur af seiðastöð, áframeldi og vinnsluhúsi auk annarra innviða vegna starfseminnar. Áformað er að stöðin muni framleiða um 40 þúsund tonn af laxi þegar hún verður komin í full afköst.

Varmi nýttur frá Reykjanesvirkjun

„Samhliða jarðvegsframkvæmdum erum við að ljúka fjármögnun og kynna verkefnið fyrir fjárfestum en það má segja að verkefnið sem slíkt sé komið á fulla ferð,“ segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis ehf. Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga framkvæmdanna er um 35 milljarðar króna. Kostnaður við fullbúna stöð er metinn verða um 85 milljarðar króna.

Landeldisstöð Samherja fiskeldis í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun. Framkvæmdir við fyrsta áfanga eru nú hafnar en áætlað er að fullbyggð kosti stöðin um 85 milljarða króna. Mynd: Audlindin.is

„Sérstaða þessa verkefnis felst fyrst og fremst í staðsetningunni í Auðlindagarðinum og tengingunni við HS Orku þar sem við nýtum ylsjó sem er affall frá Reykjanesvirkjun. Með því móti erum við að fá um 280 mW af varmaorku frá virkjuninni sem er gríðarlega mikilsvert fyrir stöðina,“ segir Jón Kjartan. Áætlað er að eftir um tvö ár hefjist eldi á seiðum í stöðinni og síðan byggist áframeldi og framleiðslumagn upp í áföngum.

Jón Kjartan segir að væntanlega muni skapast nokkur hundruð störf í kringum framkvæmdirnar meðan á þeim stendur. „Síðan reiknum við með að störf í kringum eldið sjálft verði um 60 þegar það verður komið í fullan gang og annar eins fjöldi starfa muni verða til í kringum slátrun og afurðapökkun.“

Tvöföldun í Silfurstjörnunni

Í heild rekur Samherji fiskeldi ehf. fimm eldisstöðvar og tvær vinnslur en auk laxeldis á landi rekur fyrirtækið bleikjueldi við Grindavík og slátrun og afurðapökkun á bleikju í Sandgerði. Framleiðsla á bleikju er tæplega 4000 tonn á ári og segir Jón Kjartan að bleikjuafurðir fari á markað í bæði Bandaríkunum og Evrópulöndum, líkt og er með eldislaxinn.

Fjárfesting fyrirtækisins á Reykjanesi er þó ekki eina nýfjárfesting Samherja fiskeldis um þessar mundir því fyrirtækið er nú að ljúka framkvæmdum við stækkun Silfurstjörnunnar í Öxarfirði.

Þar hefur framleiðslugetan verið tvöfölduð, úr 1500 tonnum af eldislaxi á ári í 3000 tonn. Fimm ný eldisker auk seiðastöðvar voru byggð við stöðina og á næstu vikum verður lokið við nýja aðstöðu fyrir slátrun og afurðapökkun.

Greinin birtist fyrst í nýútkomnu tölublaði Sóknarfæris.

Heimild: Audlindin.is