Bygging Landsbankans við Reykjastræti hefur hlotið steinsteypuverðlaun Steinsteypufélags Íslands. Steinsteypufélagið veitir árlega verðlaun fyrir mannvirki þar sem saman fer frumleg og vönduð notkun á steinsteypu í manngerðu umhverfi.
Verðlaunin eru veitt mannvirkinu sjálfu og öllum þeim sem komu að hönnun og framkvæmd. Samkeppni var haldin um hönnun hússins og varð hönnun Nordic Office of Architecture (þá Arkþing) og C. F. Møller hlutskörpust.
Mikil áhersla var lögð á að velja sterka samstarfsaðila í öllu framkvæmda- og byggingarferlinu. Efla verkfræðistofa sá um verkfræðihönnun, ÞG verk sá um uppsteypu hússins og Íslenskir aðalverktakar um fullnaðarfrágang. Umsjónaraðili verkkaupa var VSB. Framkvæmdir stóðu yfir 2018-2023 og var húsið tekið í notkun árin 2022 og 2023.

Steinsteypa gegnir lykilhlutverki bæði í burðarvirki byggingar Landsbankans og útliti hennar, þar sem hún stuðlar að styrk, stöðugleika og sjónrænni heild. Útlit hússins byggir á íslenskri náttúru með sínum gjótum og gjám, láréttum lögum og lóðréttu stuðlabergi. Að utan er húsið klætt með blágrýti úr Hrepphólanámu í Hrunamannahreppi og að innan endurspeglar stölluð sjónsteypan íslenskt klettalandslag.
Staðsteypt mynstursteypa í bland við forsteypt stigaþrep og gróðurkassa líkir eftir berglögum í íslenskri náttúru. Með vandlegu ígrunduðu vali á efnum og áferð hefur tekist að skapa samhljóm á milli byggingarlistar og landslags.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Það er mjög gaman að fá þessa viðurkenningu því það skiptir máli að hús á þessum stað sé vel úr garði gert. Byggingin endurspeglar fagmennsku og kunnáttu hönnuða, verkfræðinga og verktaka hússins.

Viðurkenningin er fyrst og fremst fyrir þeirra verk og ég kann þeim miklar þakkir fyrir samstarfið. Vinnuumhverfið er mjög gott og er sífellt að gefa okkur færi á aukinni skilvirkni, samvinnu og sveigjanleika sem skilar sér alltaf í betri þjónustu fyrir viðskiptavini bankans.“
Hermann Hermannsson, forstöðumaður Eignadeildar Landsbankans, veitti verðlaununum móttöku ásamt fulltrúa hönnuða hússins og verktaka.
Heimild: Landsbankinn