Í liðinni viku var fyrsti morgunfundur ársins hjá Brunatæknifélagi Íslands haldinn í höfuðstöðvum EFLU. Félagið stendur reglulega fyrir fundum þar sem fjallað er um brunavarnir.
Sérfræðiþekking EFLU í brunahönnun
EFLA hefur áralanga reynslu í brunahönnun og veitir alhliða ráðgjöf á sviði brunavarna. Fyrirtækið sérhæfir sig í hönnun brunavarnakerfa, áhættumati og greiningu á eldviðbrögðum bygginga og mannvirkja.
„Við hjá EFLU leggjum mikla áherslu á að fylgjast með nýjungum í brunahönnun og stuðla að faglegri þróun á þessu sviði,“ segir Guðrún Júlía Þórðardóttir, brunahönnuður hjá EFLU og stjórnarmaður í Brunatæknifélagi Íslands.

Fundurinn tókst afar vel, en að þessu sinni var sjónum beint að brunanum í Kringlunni árið 2024, tölfræði eldsvoða frá síðasta ári og nýjum leiðbeiningum um lagningu þakpappa. „Fundir sem þessir eru frábært tækifæri til að miðla þekkingu og ræða nýjustu áskoranir og lausnir í brunavörnum,“ bætir Guðrún Júlía við.
Öflugt tengslanet og alþjóðleg þekking
Brunatæknifélagið gegnir mikilvægu hlutverki í að auka þekkingu á brunavörnum hér á landi. Félagar koma víða að og er eitt af markmiðum félagsins að efla tengsl bæði innanlands og erlendis.
„Við erum sífellt að byggja upp tengsl við sérfræðinga erlendis til að auka aðgengi að nýjustu rannsóknum og bestu starfsvenjum í brunavörnum,“ útskýrir Guðrún Júlía. „Þekkingaröflun og reynsluskipti eru lykilatriði í að bæta brunavarnir á Íslandi.“
Heimild: Efla.is