
Kæru Brimbrettafélags Íslands til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna framkvæmda við Þorlákshöfn hefur verið vísað frá. Nefndin telur félagið ekki eiga aðild að málinu.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru Brimbrettafélags Íslands vegna framkvæmda við landfyllingu við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn. Úrskurðarnefndin stöðvaði framkvæmdirnar tímabundið á meðan kæran var tekin fyrir.
Brimbrettafélagið telur að framkvæmdirnar muni valda óafturkræfum skaða á því sem þau segja eina bestu brimbrettaöldu í Evrópu.
Í úrskurði nefndarinnar segir að ekki verði ráðið að kærandi, Brimbrettafélagið, eigi einstaklega eða lögvarða hagsmuni tengda ákvörðuninni umfram aðra. Félagið eigi því ekki kæruaðild að málinu og er því vísað frá á þeim grundvelli. Nefndin hafnaði einnig beiðni Brimbrettafélagsins um frestun réttaráhrifa.
Heimild: Ruv.is