Skatturinn og héraðssaksóknari réðust um miðjan síðasta mánuð í umfangsmiklar aðgerðir í tengslum við rannsókn á þaulskipulögðum skattsvikum – það sem kallað hefur verið reikningaverksmiðjur.
Um miðjan janúar réðust Skatturinn og embætti héraðssaksóknara í umfangsmiklar aðgerðir gegn þaulskipulögðum skattsvikum. Fimmtíu starfsmenn frá báðum embættum tóku þátt.
Bílar og fasteignir kyrrsettar
Skatturinn segir í svari við fyrirspurn Spegilsins að níu hafi verið handteknir, húsleit verið gerð á ellefu stöðum, bæði á heimilum fólks og fyrirtækjum og eignir fyrir á fjórða hundrað milljónir kyrrsettar; bankainnstæður, fasteignir, bílar og verðbréf. Þá var lagt hald á fjórða tug milljóna í reiðufé.
Og hvað er til rannsóknar? Í úrskurði sem nýlega var kveðin upp í Landsrétti er þetta kallað „reikningaverksmiðjur“. Í grunninn er slíkur verksmiðjuiðnaður frekar einfaldur. Stórt fyrirtæki greiðir litlu fyrirtæki fyrir eitthvað verk. Þetta getur verið málningarvinna eða steypuframkvæmd, svo dæmi séu tekin af handahófi.
Litla fyrirtækið tekur við greiðslunni, tekur hana út í reiðuféi, millfærir hana eða kaupir rafmynt og afhendir hana aftur til stóra fyrirtækisins en heldur einhverju smáræði eftir fyrir viðvikið. Í þessu litla fyrirtæki er lítil sem engin starfsemi, engin málningarvinna eða steypuframkvæmdir eða stundum bara einhver allt önnur starfsemi til að villa um fyrir yfirvöldum.
Litla fyrirtækið gefur síðan út reikning fyrir verkinu sem aldrei var unnið, stóra fyrirtækið gjaldfærir þann reikning sem kostnað og stuðlar þannig að lægri skattgreiðslum. Litla fyrirtækið yfirleitt ekki skil á neinum skattgreiðslum og brögð eru að því að fyrirtæki hafi mörg smærri fyrirtæki á sínum snærum sem mynda hálfgerða keðju.

RÚV – Ragnar Visage
Fjórtán reikningaverksmiðjur
Aðgerðirnar hjá Skattinum og héraðssaksóknara í síðasta mánuði voru þær viðamestu sem beinst hafa að brotastarfsemi af þessu tagi.
Fjórtán fyrirtæki eru grunuð um að hafa gefið út tilhæfulausa reikninga, vera svokölluð reikningaverksmiðja – tvö fyrirtæki um að hafa nýtt sér þessa þjónustu.
Skatturinn segir í svari sínu til Spegilsins að þeir sem nýti sér reikningaverksmiðjurnar geri það yfirleitt til að fela ólögmætar úttektir eigenda, greiða svört laun eða lækka skattgreiðslur. Reikningaverksmiðjurnar geri það til að dylja óskráð vinnuafl, mansal, bótasvik eða peningaþvætti. Fólk í viðkvæmri stöðu sé fengið til að vera skráð fyrir félögunum og fái greitt fyrir aðkomu sína.
Heimild: Ruv.is