Home Fréttir Í fréttum Perla á Seyðisfirði hentar ekki lengur og nýr skóli byggður

Perla á Seyðisfirði hentar ekki lengur og nýr skóli byggður

40
0
Húsið var flutt inn tilsniðið frá Noregi og er hannað í nýklassískum stíl. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Barnaskólinn á Seyðisfirði hentar ekki sem nútíma grunnskóli, heldur hvorki vatni né vindum, er alsettur stigapöllum og ófær fötluðum. Stærsta framkvæmd Múlaþings á næstu árum verður að byggja nýjan grunnskóla á Seyðisfirði fyrir hátt í milljarð.

Það eru eflaust ekki margir grunnskólar á landinu sem eru reknir í 118 ára gömlu húsi. Gamli barnaskólinn á Seyðisfirði var keyptur tilsniðinn frá Noregi og reistur árið 1907. Nú stendur til að byggja nýjan skóla með mötuneyti í stað þess gamla sem dreifir starfsemi um fleiri hús.

Inni í gamla barnaskólanum vekur athygli ævintýralegt stigarými í miðju húsins. Eina leiðin til að komast á milli hæða er að klífa bratta stigana.

Eins konar stigapallasalur er í miðju húsinu.
RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Rignir og blæs inn í húsið
„Það vantar hér allt aðgengi [fyrir fatlaða]. Hér erum við bara með tröppur alls staðar. Krakkarnir koma inn í kjallaranum ganga upp tröppur og upp í stofurnar. Þetta hússinser hús sem þarfnast viðhalds. Stundum rignir inn og stundum getur verið hvasst inni líka ef það er hvasst úti. Það er mjög hljóðbært hérna. Það heyrist allt sem er að gerast í húsinu. Maður heyrir það hvar sem maður er staddur,“ segir Þórunn Hrund Óladóttir, skólastjóri Seyðisfjarðarskóla.

Krakkarnir taka undir þetta og benda á að vel heyrist ef einhver sturtar niður og að gluggarnir leki.

„En ekki þar fyrir að þetta hús er glæsilegt og yndislegt hús og góð sál í því. Þannig að ég ætla ekki samt bara að tala illa um það. En sem skólahúsnæði er það ekki mjög praktískt,“ segir Þórunn.

Frumhönnun Ask arkitekta að nýjum Seyðisfjarðarskóla.
Aðsend mynd – ASK arkitektar

Ný skóli á grunni sem hefur staðið ókláraður
Nú ætlar Múlaþing að byggja nýjan grunnskóla en óvíst hvað verður um gamla húsið. Samið hefur verið um hönnun við arkitekta og verkfræðinga. Byggt verður að hluta á grunni sem gamli Seyðisfjarðarkaupstaður steypti fyrir löngu.

„Það er alveg ljóst að þetta ágæta húsnæði sem við stöndum hér í uppfyllir ekki lengur þá staðla sem við gerum um kennsluhúsnæði. Það þarf orðið ást og umhyggju og við teljum að við séum kannski ekki rétti aðilinn til að sinna því. Það er orðið nauðsynlegt að byggja hér upp þann grunnskóla sem áætlað var að byggja hér upp fyrir 40 árum og jafnvel fyrr. Og nú ætlum við að láta af því verða,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Nýi skólinn mun kosta á bilinu 8-900 milljónir króna samkvækmt áætlunum. Framkvæmdir eiga að hefjast á næsta ári og skólinn á að verða tilbúinn árið 2028.

Heimild: Ruv.is