Sex sveitarfélög í uppsveitum Árnessýslu, sem reka sameiginlegt umhverfis- og tæknisvið uppsveita hafa komið sér vel fyrir í nýju húsnæði á Laugarvatni þar sem er meira en nóg að gera við að gefa út allskonar leyfi fyrir sveitarfélögin.
Það var flaggað við nýja húsið á Laugarvatni á föstudaginn en þá var opið hús fyrir gesti og gangandi. Húsið stendur fyrir neðan Héraðsskólann og þykir einstaklega vel heppnað. 10 starfsmenn vinna í húsinu en Bláskógabyggð lét byggja húsið en hin sveitarfélögin borga þá leigu til Bláskógabyggðar.
Sveitarfélögin, sem eru í byggðasamlaginu eru auk Bláskógabyggðar, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Flóahreppur og Ásahreppur.
„Hér er mikið um að vera og þetta er gríðarlega mikilvæg starfsemi. Hún skiptir miklu máli á þessu þéttbýla svæði þar sem er mikill fjöldi fasteigna og mikill fjöldi sumarhúsa og ýmis þjónusta tengt því sem þarf að sinna,” segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar.
Og það eru heilmiklar framkvæmdir í gangi í öllum þessum sveitarfélögum eða hvað?
„Já það er mikið um að vera alls staðar, mikil uppbygging. Það er verið að byggja í öllum þéttbýliskjörnum. Það er verið að byggja sumarhús og hús út um allar sveitir þannig að það er mikið um að vera. Á þessu svæði eru til dæmis um sex þúsund sumarbústaðir,” segir Ásta.
Og eitt í viðbót með nýja húsið á Laugarvatni, sem Ásta vill koma á framfæri.
„Það er auðvitað byggt í sama stíl og gamla smíðahúsið á Laugarvatni, sem var gufubaðið þannig að það er verið að halda í gamlar hefðir hérna en það er þó ekkert gufubað,” segir Ásta hlæjandi.
Heimild: Visir.is