Borgarráð hefur samþykkt að úthluta Þjóðarhöll ehf. byggingarétt á lóð Laugardalshallar við Engjaveg. Heildargreiðsla fyrir byggingarrétt og gatnagerðargjöld eru rúmir tveir milljarðar króna.
Þjóðarhöll ehf. hefur verið úthlutaður byggingaréttur á reit F innan lóðar Engjavegar 8 í Reykjavík og þeim seldur byggingarréttur lóðarinnar fyrir rúmlega einn og hálfan milljarð króna. Auk greiðslu fyrir byggingarrétt greiðast tæplega 500 milljónir króna í gatnagerðargjöld.
Um er að ræða deiliskipulagsbreytingu þar sem lóðin er stækkuð úr 30.260 m2 í 35.030 m2. Deiliskipulagsbreytingin er gerð vegna áforma um byggingu þjóðarhallar og innanhússknattíþróttir og stórviðburði eins og tónleika og sýningar.
Lóð Laugardalshallar er stækkuð til að rúma Þjóðarhöllina milli Laugardalshallar og stofnstíga meðfram Suðurlandbraut. Lóðin stækkar til suðurs í átt að Suðurlandsbraut og að stíg sem liggur norðan æfingasvæðis fyrir fótbolta á milli Suðurlandsbrautar og Engjavegar. Á lóðinni er heimilt að byggja allt að 19.000 m2.
Lóðaúthlutunin byggir á samkomulagi milli Íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar sem gert var 10. janúar 2024.
Mikilvæg uppbygging til framtíðar
Þjóðarhöll mun uppfylla allar kröfur sem gerðar eru til alþjóðakeppni í dag. Ráðist verður í hönnun á nýju mannvirki, uppbyggingu til framtíðar sem eykur samkeppnishæfni borgar og þjóðar á alþjóðavísu. Hjarta íþróttastarfs á Íslandi verður áfram í Laugardalnum með stórbættri aðstöðu fyrir alla notendur og almenning og samnýtingu á þeim mannvirkjum sem fyrir eru.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir þetta mikilvægan áfanga. “Þjóðarhöllin mun stórbæta aðstæður fyrir keppnisíþróttir og börnin sem æfa íþróttir hjá Ármanni og Þrótti. Nú fylgjumst við öll spennt með gengi íslenska landsliðsins á HM í handbolta í Zagreb og það er spennandi að hugsa til þess að umsókn Íslands um að halda keppnina hér á landi nái fram að ganga.”
Sjá gögn í fundargerð borgarráðs mál númer 13
Heimild: Reykjavik.is