Fyrsti og stærsti kafli við framkvæmd Borgarlínu var kynntur fyrir íbúum Kópavogs í gær. Flestir vildu afla sér betri upplýsinga en höfðu hvorki lagst með né á móti þessum plönum.
Íbúar í Kópavogi fjölmenntu á fund um Borgarlínu í gær þar sem fyrsti og stærsti kafli hennar var kynntur. Atli Björn Levy, forstöðumaður verkefnastofu Borgarlínu, kynnti stöðuna á verkefninu og fleiri en 200 sóttu fundinn.
„Við erum komin á þann stað að kynna aðalskipulagsbreytingu, samhliða umhverfismatsskýrslu fyrir fyrstu lotu borgarlínunnar sem er sú stærsta ef við horfum á þessa innviðauppbyggingu,“ sagði Atli Björn.
Flestir sem sóttu fundinn vildu afla sér betri upplýsinga en höfðu hvorki lagst með né á móti þessum plönum.
Fyrsta lotan af sex er um þessar mundir kynnt íbúum Reykjavíkur og Kópavogs. Leiðin liggur um þessi tvö sveitarfélög, frá Ártúnshöfða til Hamraborgar, á um 15 kílómetrum.
Ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu standa sameiginlega að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og allri Borgarlínunni þar með. Stofnleiðir verða sjö og eiga að tengja sveitarfélög og stærstu hverfi höfuðborgarsvæðisins saman.
Reiknað er með að þessi fyrsti hluti verði kominn í gagnið árið 2031 og muni kosta 48 milljarða af þeim 130 milljörðum sem er áætlaður heildarkostnaður við Borgarlínu.
„Hún verður tekin í gagnið í áföngum, strætó mun nýta sér hluta leiðarinnar, eftir því hvernig verkið vinnst,“ sagði Atli Björn.
Fyrsta lota felur líka í sér Fossvogsbrúna frá Nauthólsvík yfir í Kársnes. Áætlaður kostnaður við brúna er 8,8 milljarðar króna.
Heimild: Ruv.is