Home Fréttir Í fréttum Virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar fellt úr gildi í héraðsdómi

Virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar fellt úr gildi í héraðsdómi

13
0
Hvammsvirkjun. RÚV – Kveikur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar.

<>

Orkustofnun veitti Landsvirkjun leyfi til reisa og reka raforkuverið Hvammsvirkjun í september í fyrra.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ógilt leyfisveitinguna.

Auk þess hefur heimild Umhverfisstofnunar til breytinga á vatnshlotinu Þjórsá 1 verið ógilt.

Málið höfðuðu eigendur og ábúendur jarða á bökkum Þjórsár. Í tilkynningu frá þeim sögðu þau tilgang kærunnar vera að standa vörð um laxastofninn í Þjórsá, vistkerfi árinnar og líffræðilega fjölbreytni auk þess að vernda Viðey, í ánni, sem var friðlýst árið 2011.

Áætluðu að taka virkjunina í notkun 2028
Í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun í september kom fram að stefnt væri á að taka virkjunina í gagnið fyrir árslok 2028.

Hvammsvirkjun er fyrirhuguð í Þjórsá. Hún á að vera 740 GWst, 95 MW að stærð, sem þýðir að hún getur unnið álíka orku og jarðvarmavirkjunin að Þeistareykjum á Norðurlandi gerir nú.

Upphaflegt virkjunarleyfi veitt árið 2022
Orkustofnun veitti Landsvirkjun upphaflega virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar í lok árs 2022. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ógilti síðar það leyfi. Landsvirkjun óskaði eftir því við Umhverfisstofnun að fá leyfi til að breyta vatnshloti Þjórsár, það er ánni sjálfri, vegna framkvæmdanna.

Umhverfisstofnun féllst á það og Orkustofnun gaf út nýtt virkjanaleyfi í september í fyrra.

Héraðsdómur hefur nú ógilt leyfi Landsvirkjunar ásamt heimild Umhverfisstofnunar til breytinga á ánni.

Í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun í september kom fram að stefnt væri á að virkjunin tæki til starfa fyrir árslok 2028. Í október var sagt frá því að sautján kærur hefðu borist úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna útgáfu virkjunarleyfisins.

Flestar kærurnar komu frá íbúum og landeigendum sem verða fyrir áhrifum af virkjuninni.

Heimild: Ruv.is