Home Fréttir Í fréttum Nýjar snjóflóðavarnakeilur ofan Neskaupstaðar farnar að virka

Nýjar snjóflóðavarnakeilur ofan Neskaupstaðar farnar að virka

72
0
Mynd: Austurfrett.is

Framkvæmdir við snjóflóðavarnir undir Nes- og Bakkagiljum ofan Neskaupstaðar, sem hófust í haust, miðar vel. Tvær fyrstu keilurnar eru farnar að veita vernd þótt þær séu ekki fullbyggðar.

<>

„Við erum byrjaðir á vörnum á því svæði sem snjóflóðin féllu árið 2023. Þar eru tvær keilur langt komnar og við höldum áfram í þeim í vetur eftir því sem veður leyfir,“ segir Viðar Hauksson, verkstjóri Héraðsverks á staðnum.

Keilurnar eru 30 metrar breiðar neðst og 10 metra efst. Þær hafa náð sjö metra hæð en eiga að ná upp í níu metra. Þær standa beint ofan við fjölbýlishúsin við Starmýri sem urðu verst úti í snjóflóðunum í mars 2023.

Síðasti vinnudagur Héraðsverks á staðnum var 20. desember síðastliðinn. Viðar segir að byrjað verði þegar veður leyfi. Reynslan segir að það verði vart fyrr en í febrúar því janúar reynist yfirleitt erfiður.

Verkið hefur gengið vel og eina hléið á vinnunni orðið um mánaðamótin nóvember/desember eða í „kosningaveðrinu“ þegar snjóaði mikið í Neskaupstað. Verkið er heldur á undan áætlun en verktakinn fullnýtti til framkvæmda það fjármagn sem var til ráðstöfunar árið 2024.

Beðið er eftir staðfestingu á nákvæmlega hve mikið fjármagn sé til framkvæmda í ár en Héraðsverk hefur lag fram sínar áætlanir um hvað hægt sé að gera á árinu. Áætlað er að byrja á hinum eiginlegu varnargörðum í apríl.

Heimild: Austurfrett.is