Home Fréttir Í fréttum Fundu heitt vatn á Kjalar­nesi og Geldingarnesi

Fundu heitt vatn á Kjalar­nesi og Geldingarnesi

48
0
Frá borunum Veitna eftir heitu vatni á Geldingarnesi í nóvember 2024. Veitur

Tvö ný lághitasvæði hafa fundist við leit Veitna á höfuðborgarsvæðinu, eitt á Kjalarnesi og annað á Geldingarnesi. Fundinum er lýst sem tímamótum þar sem eftirspurn eftir heitu vatni til húshitunar og atvinnustarfsemi fer vaxandi á höfuðborgarsvæðinu.

<>

Heitt vatn fannst á Brimsnesi á Kjalarnesi nú í nóvember og er allt sagt benda til þess að þar hafi fundist nýtt jarðhitakerfi sem hægt sé að nýta fyrir höfuðborgarsvæðið í tilkynningu frá Veitum. Það væri þá fimmta lághitasvæðið sem sér höfuðborgarsvæðinu fyrir heitu vatni.

Fjörutíu lítrar á sekúndu af hundrað gráðu heitu vatni fundust á Kjalarnesi. Enn á eftir að staðfesta hver vinnslugeta svæðisins gæti orðið. Hún hefur verið metin allt að tvö hundruð lítrar á sekúndu af heitu vatni til bráðabirgða. Það er sagt samsvara hámarksþörf um tíu þúsund manna hverfis.

Frekari rannsóknir og boranir eru fyrirhugaðar á Brimsnesi á næstu mánuðum og árum. Gangi allt að óskum gæti vatn frá Brimsnesi komið inn á hitaveitukerfið innan þriggja til fimm ára.

Veitur eru varfærnari um möguleikana á Geldingarnesi þar sem erfitt hefur reynst að finna heitt vatn. Þar hafa fundist um tuttugu lítrar á sekúndu af níutíu gráðu heitu vatni. Langtímavinnslupróf á borholu á að hefjast þegar búið verður að bora hana niður á fullt dýpi. Kanna þurfi hvernig hún bregðist við því að heitu vatni sé dælt upp og hvort kalt vatn komi þá inn í kerfið.

Á næstu árum stendur svo til að bora fleiri holur þar og feista þess að finna lekar spurgunr víða og helst á meira dýpi. Niðurstöður þeirra borana eiga að leiða í ljós undir hversu mikilli vinnslu Geldingarnes stendur undir til framtíðar.

Heimild: Visir.is