Home Fréttir Í fréttum Ný og glæsileg yfirbygging opnuð á Stöng

Ný og glæsileg yfirbygging opnuð á Stöng

32
0
Ljósmynd/Minjastofnun

Síðastliðinn þriðjudag fór fram opnun á nýrri yfirbyggingu skálans á Stöng í Þjórsárdal. Það er Minjastofnun Íslands sem stendur að uppbyggingunni en yfirbyggingin var hönnuð af arkitektunum Karli Kvaran og Sahar Ghaderi hjá Sp(r)int Studio í Reykjavík.

<>

Magnús Guðmundsson, skrifstofustjóri í umhverfis- orku- og loftlagsráðuneyti, opnaði formlega húsið fyrir hönd ráðherra. Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar Íslands, ávarpaði gesti og Karl Kvaran, arkitekt sagði frá hönnun hússins. Þá fræddi Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, gesti um fornleifarnar á staðnum og sögu Þjórsárdals.

Með byggingunni er stórt skref stigið í minjavernd, aðkomu og aðstöðu gesta sem koma í tugþúsundatali á ári hverju til að berja augum þær einstöku minjar frá víkingaöld sem er að finna á Stöng og þekktar eru langt út fyrir landsteinana.

Framkvæmdin hófst í júlí 2023 og lauk í september síðastliðnum. Hún hefur falið í sér umfangsmikla jarðvinnu, endurnýjun burðarvirkis, uppsetningu nýrra veggja og palla ásamt lagnavinnu til að bæta frárennsli.

Verktakinn Langeldur ehf. sá um framkvæmdina ásamt ráðgjöf frá Sp(r)int Studio og VSB verkfræðistofu. Minjastofnun Íslands er verkkaupi en Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir hefur haft umsjón með framkvæmdinni.

Á meðan á verkinu stóð fannst forn bygging við austurenda skálans sem liggur undir gjóskulaginu frá Heklugosinu árið 1104. Þessi fornleifafundur jók við umfang verksins, en hann veitir einstaka innsýn í byggingarhætti Íslendinga á þjóðveldisöld.

Ljósmynd/Minjastofnun

Byggt yfir Stöng í þriðja sinn
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem byggt er yfir fornleifarnar á Stöng. Fljótlega eftir fyrstu fornleifarannsóknina á staðnum á fjórða áratug síðustu aldar var skýli reist yfir minjarnar þeim til verndar og miðlunar. Svo í annað sinn árið 1957 þegar skýlið var úr sér gengið.

Fyrir rúmum áratug efndu Fornleifavernd ríkisins (nú hluti af Minjastofnun Íslands), ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu og Skeiða- og Gnúpverjahreppur til samvinnu um að bæta aðgengi að minjum í Þjórsárdal og miðlun upplýsinga um þær.

Í kjölfarið efndi Fornleifavernd ríkisins, í samvinnu við Arkitektafélag Íslands, til hugmyndasamkeppni um tillögur að hönnun ásýndar og umhverfis fornleifa við Stöng. Alls bárust þrettán tillögur í keppnina og voru úrslit kynnt í nóvember 2012. Dómnefnd var einhuga um að veita tillögu arkitektanna Karls Kvaran og Sahar Ghaderi 1. verðlaun.

Dagsbirta og góð yfirsýn
Í vinningstillögunni kusu höfundarnir að afmarka minjasvæðið á bæjarhólnum með samfelldum timburpalli sem í senn myndar umgjörð um minjarnar og er um leið göngustígur og útsýnispallur.

Upphafleg hugmynd var að reisa nýtt hús yfir minjarnar en á seinni stigum verkefnisins var ákveðið að vinna frekar með form og burðargrind skýlisins sem fyrir var á staðnum fremur en að reisa alveg nýja yfirbyggingu.

Í stað bárujárns á þaki er notast við gagnsætt báruplast sem veitir dagsbirtu inn í rýmið. Stór gluggaop eru á göflum sem opna sýn inn að skálarústinni og á austurgafli eru dyr að innisvölum þaðan sem horfa má yfir fornleifasvæðið.

Lagður hefur verið nýr stígur með þægilegum halla frá áningarstað og bílastæði við nýja göngubrú og áfram upp brekkuna að bæjarhólnum. Minjastofnun Íslands vinnur nú að gerð fræðsluefnis og miðlunar fyrir svæðið.

Heimild: Sunnlenska.is