Home Fréttir Í fréttum Þrjú banaslys í mannvirkjagerð á Íslandi á þessu ári

Þrjú banaslys í mannvirkjagerð á Íslandi á þessu ári

70
0
Jóhanna Klara Stefánsdóttir er sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins. Hún segir Íslendinga eftirbáta annarra norrænna ríkja þegar kemur að öryggi á byggingarstað. RÚV – Benedikt Sigurðsson

Níu banaslys hafa orðið í mannvirkjagerð á Íslandi á undanförnum árum, þar af þrjú á þessu ári. Vinnuslys á Íslandi eru hlutfallslega langtum fleiri á Íslandi en í Noregi. Stefnt er að því að stofna sérstakan öryggisskóla.

<>

Þrjú banaslys hafa orðið á byggingarstað á Íslandi á skömmum tíma. Karlmaður á fertugsaldri lést í Urriðaholti í lok ágúst og banaslys varð á byggingarstað í Árborg í vikunni. Í júní lést maður sem slasaðist í vinnuslysi á Akranesi.

Jóhanna Klara Stefánsdóttir er sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins: „Við höfum verið að bera okkur saman við lönd sem við viljum bera okkur saman við, Svíþjóð og Noreg, og við sjáum að það er staðreyndin að hér á landi er slysum heldur að fjölga.“

Samkvæmt tölum frá Samtökum iðnaðarins hefur slysum á byggingarstað fjölgað undanfarin ár. Í fyrra voru þau tæplega tólf á hverja þúsund starfandi í mannvirkjagerð. Á sama tíma hafa þau nánast staðið í stað í Noregi, í kringum sex. Þrír hafa látist við mannvirkjagerð á Íslandi í ár og hafa ekki verið fleiri undanfarin sex ár.

Það er ekki með öllu hættulaust að vinna við mannvirkjagerð á Íslandi. Slysin hér á landi eru hlutfallslega langtum fleiri en í öðrum norrænum ríkjum.
RÚV – Hjalti Haraldsson

Jóhanna segir mjög mismunandi hvernig fyrirtæki standi sig í öryggismálum: „Mörg fyrirtæki eru með mjög góða öryggismenningu og þekkja áhætturnar. Önnur fyrirtæki þurfa einfaldlega meiri hjálp.“

Mikið hefur verið byggt á Íslandi undanfarin ár og margir komið til landsins til starfa í byggingariðnaði, en hafa allir sem koma fullnægjandi reynslu? „Við sjáum að þar má gera betur. Við verðum að miðla okkar kröfum á mismunandi tungumálum.“ Nú er unnið að því að koma á laggirnar sérstökum öryggisskóla mannvirkjagerðar, sem vonir standa til að taki til starfa á nýju ári.

Heimild: Ruv.is