Ökumaður vöruflutningabíls var handtekinn í gær á Villingaholtsvegi eftir að hafa sturtað möl úr palli bílsins á veginn og keyrt að því loknu á lögreglubíl.
Í samtali við mbl.is segir Þorsteinn Kristinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi, að lögregla hafi verið á veginum að sinna eftirliti með atvinnutækjum þar sem hún meðal annars kannar farm tækjanna og þyngd hans.
Þar var ökumaðurinn stöðvaður og virðist hafa brugðist illa við.
„Viðbrögðin voru svona. Hann sturtaði úr pallinum og ók á lögreglubílinn,“ segir Þorsteinn.
Þannig að þeir stoppa hann þarna af því að þeir eru að sinna eftirliti og hann hefur bara tekið því svona illa, ökumaðurinn?
„Hvað það hefur verið nákvæmlega – alla vega voru viðbrögðin þessi.“
Enginn slasaðist
Þorsteinn segir sem betur fer engan hafa slasast við atvikið og að maðurinn hafi verið handtekinn.
„Þegar lögreglumönnum er almennt ógnað á þennan hátt og þeim sýndir einhverjir ofbeldistilburðir þá er eitt sem gerist og það er að menn eru sviptir frelsi í einhvern tíma.“
Um framhald málsins segir að farið verði nú í rannsókn og skýrslutöku og að svo verði ákvörðun tekin.
Heimild: Mbl.is