Home Fréttir Í fréttum Uppbygging við Fjörð sú umfangsmesta í áratugi

Uppbygging við Fjörð sú umfangsmesta í áratugi

99
0
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Guðmundur Bjarni Harðarson framkvæmdastjóri 220 Fjarðar, Haraldur Reynir Jónsson stjórnarformaður og Benedikt Steingrímsson stjórnarmaður undirrituðu kauptilboðið í gær. Hafnarfjarðarbær – Aðsend

Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar býst við því að nýtt húsnæði Bókasafns Hafnarfjarðar verði afhent árið 2026. Hún segir fyrirhugaðar framkvæmdir við verslunarmiðstöðina Fjörð verða þær umfangsmestu í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi.

<>

Breytingar og uppbygging við Fjörð í Hafnarfirði verða umfangsmestu framkvæmdir í miðbæ Hafnarfjarðar í áratugi. Til stendur að reisa 1.700 fermetra byggingu sem mun meðal annars hýsa verslanir, veitingastað og Bókasafn Hafnarfjarðar.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, Guðmundur Bjarni Harðarson framkvæmdastjóri fasteignafyrirtækisins 220 Fjarðar, Haraldur Reynir Jónsson stjórnarformaður og Benedikt Steingrímsson stjórnarmaður undirrituðu kauptilboð fyrir nýtt húsnæði bókasafnsins síðdegis í gær.

Búist við þrefalt fleiri bókasafnsgestum
Bókasafn Hafnarfjarðar stendur nú við Strandgötu 1 og eru gestir þess um 125 þúsund á hverju ári, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ. Þar segir að búist sé við því að nýja bókasafnsbyggingin muni hafa töluvert aðdráttarafl og að fjöldi árlegra gesta gæti jafnvel þrefaldast. Þá á að nútímavæða bókasafnið í samræmi við breyttar kröfur og þarfir samfélagsins.

„Við horfum til þess að bókasafnið okkar eflist verulega og verði mikið aðdráttarafl fyrir bæjarbúa á öllum aldri. Það verði samkomustaður fyrir okkur til að hittast, auðga og næra andann,“ er haft eftir Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra í tilkynningunni.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar staðfesti samhljóða á fundi sínum 19. júní síðastliðinn kauptilboð bæjarins í húsnæðið og er kaupverð 1,1 milljarður króna. Stefnt er að því að húsnæðið verði afhent snemma árs 2026.

Heimild: Ruv.is