Home Fréttir Í fréttum Nýtt þjónustuhús við Hengifoss opnað

Nýtt þjónustuhús við Hengifoss opnað

100
0
Mynd: Nives Dragan

Nýtt þjónustuhús við Hengifoss í Fljótsdal var opnað síðustu helgi. Húsið er hluti af framkvæmdum sem staðið hafa undanfarin ár til að taka á móti þeim fjölda gesta sem sækir staðinn.

<>

Þjónustuhúsið er alls 140 fermetrar, þar af í því er 88 fermetra salur en síðan líka salerni, starfsmannaaðstaða og geymslur. Salernin eru sjö talsins, þar af eitt fyrir fólk með fötlun.

Byggingin hefur átt sér nokkurn aðdraganda því um allnokkurt skeið hefur verið ljóst að bæta þyrfti aðstöðuna. Þar til í sumar var aðeins lítill skúr með tveimur salernum á staðnum en samkvæmt tölum úr mælaborði ferðaþjónustunnar voru gestir þar í fyrra 114 þúsund. Það gerir Hengifoss að öðrum vinsælasta áfangastaði Austurlands, á eftir Stuðlagili.

Hönnunarsamkeppni var haldin árið 2016 og varð hönnun norsk-íslenska arkitektaparsins Eriks Rönning Andersen og Sigríðar Önnu Eggertsdóttur fyrir valinu, en þau hönnuðu einnig þjónustuhús í Vatnsskarði eystra. Þau opnuðu húsið formlega í gær með að klippa á blátt baggaband.

Eftir var þó að laga hönnunina betur að umhverfinu, fjármagna framkvæmdir og gera áætlanir um rekstur hússins. Á sama tíma var hins vegar byrjað að vinna í gönguleiðinni upp að fossinum með að gera upplýsingabekki og fleira í þeim stíl sem arkitektarnir lögðu upp með.

Mynd: Nives Dragan

Áfangastaðurinn Hengifoss byggður upp
Eftir að styrkur fékkst úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða var byrjað á jarðvinnu við húsið haustið 2021.

Ári síðar var samið við Verkráð um byggingarstjórn og síðan MVA og Austurbygg um húsið sjálft. MVA sá um steypuvinnuna en Austurbygg stýrði öðrum frágangi að innan sem utan.

Byrjað var að reisa húsið vorið 2023 og í fyrra haust tók Austurbygg við. Vinnu við húsið í lauk í vetur og í vor og sumar hefur verið gengið frá lóðinni.

Áfram verður haldið á staðnum því væntanlegar eru hleðslustöðvar fyrir rafbíla á bílaplanið sem hefur verið stækkað. Í vikunni var byrjað að innheimta bílastæðagjöld þar sem ætlað er að standa undir umhirðu við áfangastaðinn. Tvær göngubrýr eru komnar á ána og því hægt að ganga hringinn í kringum gil hennar, í stað þess að fara aðeins upp að innanverðu eins og áður.

Mynd: Nives Dragan

Nýr vinnustaður í Fljótsdal
Lárus Heiðarsson, oddviti Fljótsdalshrepps, sagði við opnunarathöfnina síðustu helgi að umferðin við Hengifoss hefði breyst mikið frá því hann gekk fyrst upp að fossinum árið 1996 en hann og samferðamaður hans hefðu þá verið einir á ferðinni. Með auknum fjölda hefði orðið ljóst að þörf væri á framkvæmdum.

Fljótsdælingar væru stoltir af því húsi, aðstöðu og umhverfi sem nú væri komið, þótt „fjárhagsáætlanir hafi mögulega ekki alveg staðist tímans eða verðbólgunnar tönn.“

Hreppurinn réði í vor Helgu Eyjólfsdóttur til að stýra uppbyggingu og umhirðu á staðnum. Lárus sagði að verið væri að þróa byggja upp nýjan vinnustað í sveitinni sem auki fjölbreytni í störfum þar og bæti lífsgæði bærði gesta og heimafólks.

Í salnum opnuðu síðustu helgi þrjár sýningar. Í fyrsta lagi eru þar ljósmyndir af Austurlandi, í öðru lagi ljósmyndir Örnu Silju Jóhannsdóttur af eyðibýlum í Fljótsdal og í þriðja lagi sumarsýning Héraðsskjalasafns Austfirðinga um Margréti Sigfúsdóttur frá Skjögrastöðum, en hún bjó lengst af í Fljótsdal.

Heimild: Austurfrett.is