Framkvæmdir við uppsetningu útsýnispala við Dynjanda hófust í gær. Upphaflega stóð til að hefja framkvæmdirnar í byrjun júlí.
Þetta segir Steinn Hrútur Eiríksson, verkefnastjóri framkvæmdanna, í samtali við mbl.is.
Þyrla flýgur nú um Dynjanda til að ferja efnivið, en ekki er önnur leið til þess nema með þyrlu.
Verkefnið er á vegum Umhverfisstofnunar en upphaflega stóð til að pallarnir yrðu tveir. Það var þó tekin ákvörðun um að fresta öðrum þeirra um óákveðinn tíma.
Ferðamenn þakklátir
Framkvæmdirnar áttu upphaflega að hefjast í lok júlí en Steinn segir að það hafi frestast fimm sinnum vegna veðurs. Steinn segir það sérstakt miðað við árstíma en til þess að þyrlan geti flogið að Dynjanda þarf að myndast veðurgluggi í þrjá til fjóra daga þar sem það er lágskýjað og lítið um vind.
Hluti af gönguleiðinni verður einnig lagfærður og mun aðgengi að gönguleiðinni vera takmarkað á meðan framkvæmdir standa yfir. Steinn segir að ferðamenn á svæðinu virði takmarkanir og segir að þeir séu flestir þakklátir fyrir að verið sé að lagfæra svæðið.
Heimild: Mbl.is