Home Fréttir Í fréttum Fjármagn tryggt til að bjóða út meðferðarkjarna við Hringbraut

Fjármagn tryggt til að bjóða út meðferðarkjarna við Hringbraut

63
0
Tölvuteiknuð mynd af meðferðarkjarnanum. .

Fjármagn til að bjóða út nýjan meðferðarkjarna sem rísa mun á lóð Landspítalans við Hringbraut er tryggt í nýrri fimm ára fjármálaáætlun ríkisins. Þetta kom fram í ávarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra á ársfundi Landspítalans.

<>

Til stendur að meðferðarkjarninn verðir á sex hæðum og að þar verði að finna megnið af þeirri starfsemi spítalans sem snertir sjúklinga beint, til að mynda bráðamóttöku, gjörgæslu og skurðstofur. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hefur kallað meðferðarkjarnann flóknustu og stærstu bygginguna í nýja klasanum sem rísa mun á lóðinni.

Í ávarpi sínu fjallaði Kristján meðal annars um fjárveitingar til spítalans undanfarin ár og vék tali að fimm ára áætluninni, sem kynnt verður á næstu dögum.

„Þar er í fyrsta sinn áætlað fyrir milljarða framkvæmdum við meðferðarkjarna nýs spítala sem rísa mun á lóð Landspítalans við Hringbraut í samræmi við áætlanir og ákvarðanir stjórnvalda og fyrirliggjandi skipulag,“ segir Kristján. „Í áætluninni er tryggt fjármagn sem gerir kleift að bjóða út framkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna strax og hönnunarferlinu líkur 2018.“

Undanfarnir tólf mánuðir hafa verið nokkuð stormasamir á Landspítalanum og fjallaði Kristján Þór meðal annars um verkföll og kjaradeilur á spítalanum og sýknudóm yfir hjúkrunarfræðingi sem ákærður var fyrir manndráp af gáleysi. Þá talaði ráðherrann stuttlega um tillögur sínar að nýju greiðsluþátttökukerfi fyrir notendur heilbrigðisþjónustunnar, sem talsvert hafa verið til umfjöllunar að undanförnu.

Tillögurnar segir Kristján meðal annars miða að því að einfalda núverandi kerfi og vernda þá sem mest þurfa á þjónustunni að halda frá háum útgjöldum.

„Til marks um núverandi flækjustig má nefna að kerfið er samsett úr mörgum tugum mismunandi kerfa, sem enginn hefur yfirsýn yfir, og veldur því að okkar veikasta fólk er illa, og í sumum tilfellum, alls ekki tryggt fyrir veikindum þeirra,“ segir Kristján. „Frumvarp um nýtt greiðsluþátttökukerfi liggur fyrir þingi og ég vona að það verði samþykkt þaðan áður en langt um líður.“

Heimild: Visir.is