Vegagerðin hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar milli Hafnavegar og Garðskagavegar. Með áætluninni er verið að skoða hvaða áhrif framkvæmdirnar myndu hafa á umhverfið í kring.
Samkvæmt matsáætluninni er gert ráð fyrir því að vegurinn verði fjögurra akreina, með tveimur akreinum í hvora átt og aðskilnaði akstursstefna með vegriði.
Um er að ræða 4,7 km langan kafla Reykjanesbrautar gegnum bæjarfélögin Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ og áætlað er að framkvæmdirnar muni kosta um fjóra milljarða króna.
Unnið hefur verið að tvöföldun Reykjanesbrautar síðan 2003 og stefnt er að því að ljúka verkinu alla leið frá Keflavíkurflugvelli að höfuðborgarsvæðinu.
Mislæg gatnamót í staðinn
„Það er gert ráð fyrir því að þessi hringtorg hverfi og í staðinn komi mislæg gatnamót, þó ekki eins mörg og hringtorgin,“ segir Helga Aðalgeirsdóttir, sérfræðingur hjá Vegagerðinni, í samtali við Morgunblaðið, en á þessum kafla brautarinnar eru fimm hringtorg.
Spurð hvort vitað sé hvenær framkvæmdir hefjast svarar Helga því neitandi. Enn sé mikil óvissa varðandi allar framkvæmdir Vegagerðarinnar því ekki sé búið að samþykkja samgönguáætlun.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.
Heimild: Mbl.is